Húnavaka - 01.05.1973, Blaðsíða 126
124
HÚNAVAKA
Hann var orðinn gamall og var löngu farinn að þrá hvíld. Hreyf-
ingar hans báru allar vott um, að eitthvað amaði að honum. Læknar
sögðu það vera kölkun. Hann virtist ekki geta beygt sig um nein
liðamót.
Oftast gekk hann með hendur fyrir aftan bak, og vaggaðist svo
einhvern veginn áfram. Hárið var grátt og hékk í slitrum fram á
ennið og niður á hálsinn. Hann var lágur vexti, og hendurnar báru
vott um mikla vinnu. Hann gekk oftast í bláum nankinsbuxum,
sem voru allar útataðar í allskyns óþverra, svo sem mykju, tóbaki,
matarslettum o. fl.
Gústi gamli staulaðist nú áfram. Oft varð hann að stanza til að
kasta mæðinni. Fór hann þá í vasann, tók upp tóbakspontuna, og
setti upp í nösina, og svolítið upp í munninn. „Ja ef ég hefði ekki
tóbakið, hvernig færi ég þá að?“, tautaði hann við sjálfan sig. Tóbak
var það allra bezta, sem hann gat hugsað sér. Á sínum yngri árum,
hafði hann ætíð notað tóbak. — Kannske það hafi verið þess vegna,
sem ungu stúlkurnar vildu ekki sjá hann. Einu sinni hafði hann
verið hrifinn af stúlku. Já, hún var kölluð Dísa, en allt kom fyrir
ekki, hvernig sem hann reyndi var allt tilgangslaust. Dísa giftist öðr-
um, og slokknaði þá allur eldur í ltuga hans. Að vera elskaður, vissi
hann ekki hvað var. Hvernig skyldi þessi móðurást vera, sem svo
margir töluðu um? Nei hann hafði aldrei átt raunverulega móður,
sem hann gat leitað til, en von hans og þrá frá bernskuárunum um
hana, hafði aldrei slokknað. — Hún hlýtur að bíða mín einhvers-
staðar hugsaði hann, því að hún skildi eftir blik, sem hann missti
aldrei sjónar af.
Nú var gamli maðurinn kominn niður að fjósi, kýrnar voru farn-
ar út. Piltarnir hafa eflaust leyst þær, hugsaði hann. Hann tók að
moka flórinn, verkið gekk seint, og hann var móður þreyttur. Loks
lauk hann þó við það, og var þá þungu fargi af honum létt. Hann
ráfaði heim að bænum, og inn í eldhús. Þar var stóllinn hans, sem
enginn settist á nema hann. Húsmóðirin kom með málið hans og
hellti sjóðandi kaffi í það, rétti honum svo tvo sykurmola. Þetta var
daglegur skammtur sem hann fékk ætíð, er hann kom úr fjósinu.
Hann sagði ekkert, en sötraði kaffið sitt þegjandi. Er hann hafði
lokið úr málinu stóð hann hægt á fætur, studdi sig við borðbrún-
ina augnablik, og staulaðist síðan inn í herbergið sitt, lagðist upp í
rúm, og sofnaði værum blundi.