Húnavaka - 01.05.1973, Blaðsíða 175
HÚNAVAKA
173
Þann 22. marz, andaðist Petrea Elinbjörg Jónsdóttir, Skrapatungu,
Vindhælishreppi, á H.A.H.
Hún var fædd 31. ágúst 1895 í Laufási í Víðidal. Voru foreldrar
hennar Jón Daníelsson og kona hans Helga Björnsdóttir. Meðal
systkina Petreu var séra Valdimar Eyland, prestur í Winnipeg, er var
hálfbróðir hennar.
Petrea ólst upp með foreldrum sínum. Hún mun snemma hafa
verið tápmikil og vinnusöm og þroskaðist þá með henni skapfesía
til sjálfstæðis í lífinu.
Petrea giftist 22. júní 1924, Guðmundi Antoniusi Péturssyni, er
var Húnvetningur. Hann andaðist 24. desember 1957. Hann var hið
mesta prúðmenni, söngelskur og félagslyndur. Börn þeirra voru:
Sophus Sigurlaugur, ókvæntur, bóndi í Skrapatungu. Helga, gift
Kristjáni Sigurðssyni, bónda á Höskuldsstöðum.
Þau hjón Petrea og Antoníus hófu búskap á Hnjúkum, síðan í
Hamrakoti, en fluttu að Mýrarkoti 1928 og bjuggu þar til 1945, að
þau keyptu Skrapatungu á Laxárdal.
Þau voru frumbýlingar, er hófu búskap á einni minnstu jörð
hreppsins og þó að eigi áraði vel, héldu þau ótrauð áfram búskap og
reistu sér aldrei hurðarás um öxl. Enda sáu þau brátt ávöxt iðju
sinnar, er þau fluttu á betri jörð, Skrapatungu, og batnandi hagur
fór í hönd. Þau byggðu steinhús og brú kom á ána gegnt Skrapa-
tungu.
Petrea Jónsdóttir var aðsópsmikil kona og dugleg til allra verka.
Hún var gestrisin og áttu allir þeir mörgu, hlýju að mæta, er ferð-
uðust yfir ána á Skrapatunguvaði, eða voru í Skrapatungurétt.
Þá starfaði Petrea mikið í kvenfélagi Hijskuldsstaðasóknar. Eftir
lát manns síns var hún ráðskona hjá Sophusi syni sínum.
Sr. Pétur Þ. Ingjaldsson.