Húnavaka - 01.05.1973, Blaðsíða 132
130
HÚNAVAKA
annarri hendinni og pokaskjatta á baki. Berhöfðaður var hann, hár-
ið grátt og þykkt og stirndi á það í sólskininu. Augun lágu djúpt
undir loðnum brúnum og í þeim brann óslökkvandi glóð.
„Komið þið sæl, blessuð börn, komið þið sæl. Þið þekkið mig
ekki. Nei, ekki von, hreint ekki von“. Hann brosti og skarpleitt and-
litið fékk nýjan svip við brosið. „Ég þekkti einu sinni til hér, o. já“.
Hann hló. Hláturinn var stórkarlalegur, en ekki óviðfeldinn. I þessu
komafi fyrir bæjarhornið. Gesturinn var fljótur að komaauga á hann.
„Komdu sæll, komdu sæll, ævinlega blessaður", hann hristi hönd
afa með snöggum rykkjum. „Þekkirðu mig ekki“, og aftur hló hann.
„Ert það þú Láki minn? Hvort ég þekki þig“. Nú var það afi sem
hristi hönd gestsins. „Gakktu í bæinn Láki minn“, og gömlu menn-
irnir gengu inn glaðir í bragði.
Við krakkarnir fylltumst forvitni. Hvaðan þekkti afi þennan
mann? Þeirri spurningu fengum við fljótt svarað. Láki hafði verið
kaupamaður hjá afa fyrir um það bil 30 árum.
Láki dvaldi hjá okkur lengi dags og kunni frá mörgu að segja.
Oft hafði hann komizt í hann krappann um ævina, eftir sögunum að
dæma. Ótal sinnum hafði hann farið í fjárleitir inn í óbyggðir, lent
þar í mannskaðaveðrum, villum og hvers kyns hrakningum. Eitt
sinn gekk hann rammvilltur og matarlaus um öræfin í 6 daga, unz
hann náði til byggða. „Mig var reyndar farið að svengja“, sagði
hann og hló að skelfingarsvipnum á okkur krökkunum, sem ævin-
lega vorum orðin banhungruð á hverjum matmálstíma. „Já, krakka-
píslir, ykkur lízt ekki á. Hreint ekki von, hreint ekki von“.
Oft hafði hann líka verið til sjós, og ekki lent í minni svaðilför-
um þar en á landi. „Ég hef níu líf eins og kötturinn", og Láki hló
sínum stóra hlátri. Á sumrin hafði hann flækzt um sem kaupamað-
ur, oftast verið í sínu byggðarlaginu hvert sumar. Aldrei hafði hann
fest ráð sitt og kvænzt. „Ég gæti ekki haft fastan bústað, flakkið er
mér í blóð borið, já hefur alltaf verið í blóðinu", bætti hann við til
útskýringar.
Síðla dags kvaddi hann og hélt leiðar sinnar. Flökkueðlið sagði
til sín.
Við krakkarnir og afi stóðum á hlaðinu og horfðum á þennan
aldurhnigna ævintýramann hverfa bak við hæðirnar. Einu sinni
sneri hann sér við og veifaði með stafnum sínum. Við veifuðum á
móti. Svo hvarf hann og við höfum aldrei séð hann síðan.