Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2010, Blaðsíða 3
3
Af menningarástandi
„Til þess að vjer skiljum þjóðerni vort og sögu landsins bæði að fornu
og nýju, og til þess að vjer skiljum fornsögurnar, þarf langt um meira
en menn hafa hugsað um, og vil jeg fyrst telja sem eitt af því nauðsyn-
legasta: þjóðlegt forngripasafn.“
Sigurður Guðmundsson málari 24. apríl 1862
„Fornmenjarnar lýsa á sinn hátt, eins og fornsögurnar á sinn, forn-
öldunum, og leiða þær sem sýnilegar og áþreifanlegar fram fyrir sjón-
ir manna; lýsa þær þannig, hver um sig, öld þeirri er þær eiga að rekja
aldur sinn og kyn til, – allar lýsa þær sinnar aldar kunnáttu, smekk,
hugsunarhætti o.s.fr.“
Helgi Sigurðsson 8. janúar 1863
Með þessum ákallsorðum hefst samantekt Matthíasar Þórðarsonar for-
stöðumanns Þjóðmenjasafnsins á yfirliti hans frá 1913 um fyrstu fimmtíu
ár stofnunarinnar. Safnið átti í upphafi fimmtán gripi og var fyrst til húsa
í rislofti dómkirkjunnar í Reykjavík þar sem gripirnir voru sýndir í tæplega
10 fermetrum. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og safnastarf í
landinu kvíslast í ótal áttir sérhæfingar; menningarminjasöfn, náttúru-
minjasöfn og listasöfn, svo eitthvað sé talið. Í dag skipta söfn tugum um
allt land og varpa ljósi á „kunnáttu, smekk og hugsunarhátt þjóðarinnar“ í
fortíð og nútíð. Söfn eru opinberar stofnanir sem safna heimildum um
manninn, sögu hans, umhverfi og náttúru landsins. Í löggjöf um safnastarf
í landinu, Safnalögum, frá árinu 2001 er kveðið á um fjórskipt hlutverk
safna; söfn eigi að standa vörð um þær heimildir sem þau safna, rannsaka
þær, miðla upplýsingum um þær og hafa til sýnis svo að þær megi nýtast til
rannsókna, fræðslu og skemmtunar. Þær greinar sem birtast í þessu þema-
hefti Ritsins sýna fram á hvernig söfn og safnastarf gegna þessum hlutverk-
um með ýmsum hætti.