Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2010, Blaðsíða 79
79
MEnninGARVÆÐinG ViÐSKiPTALÍFSinS
Lokaorð
Victoria D. Alexander gerði umfangsmikla rannsókn á áhrifum fjármögn-
unar stórfyrirtækja á sýningar safna í Bandaríkjunum. Rannsóknin náði til
4.000 sýninga í fimmtán söfnum yfir tuttugu og fimm ára tímabil.66
Alexander komst meðal annars að því að stórfyrirtæki töldu hag sínum
betur borgið með því að styrkja vinsælar og aðgengilegar sýningar fremur en
fræðandi sýningar sem söfnin töldu nauðsynlegar til að framfylgja tilgangi
sínum og viðhalda stöðu sinni í fræðasamfélaginu. Andstætt við álit margra
gagnrýnenda styrkveitinga stórfyrirtækja við menningarstarf kom fram í
rannsókninni að þó að vinsældir sýninga séu stórfyrirtækjum mikilvægar
kæra þau sig ekki um að styrkja eitthvað sem talið er innantómt og einfalt.
List þarf því að njóta löghelgunar til að tengsl hennar við fyrirtækið færi
nafni þess og ímynd þann ljóma sem að er stefnt með fjárframlaginu.67
Samkvæmt Alexander hafa styrktaraðilar ákveðinn smekk, viðmið og
styrktarstefnu (e. funding portfolio) sem endurspeglar oft smekk eða afstöðu
stjórnarformanna fyrirtækjanna til góðgerðarmála. Hagur fyrirtækisins og
stjórnarformannsins er í öndvegi en áhuginn oft minni á listinni sem slíkri.
Hafi söfn fleiri en einn styrktaraðila eru markmið þeirra jafnvel í mótsögn
hvert við annað og ganga gegn heilindum í sýningarstefnu (e. exhibition
portfolio) safnanna. Fjármögnun sýninga hefur því ótvírætt áhrif á sýning-
arstefnu safna og getur byggt undir eða unnið gegn kjarnastarfsemi
þeirra.68
Í kjölfar hátíðarinnar „Reykjavík menningarborg Evrópu árið 2000“ og
með einkavæðingu ríkisbankanna á árunum 2002–2003 varð breyting á
afstöðu ríkisvaldsins til menningarmála á Íslandi.69 Stjórnvöld hvöttu stór-
fyrirtæki til að styðja menningarstarfsemi og menningarstofnanir til að
auka sértekjur sínar, ekki síst með samstarfi við stórfyrirtæki. Brotthvarf
átti sér stað frá velferðarsjónarmiði norrænnar menningarstefnu og hefð-
bundnir listrænir mælikvarðar töpuðu vægi sínu í mati stjórnvalda á
frammistöðu menningarstofnana. Hugmyndafræði nýfrjálshyggju varð
ríkjandi þar sem mælikvarðar almenns fyrirtækjareksturs voru teknir upp
66 Victoria D. Alexander, „Monet for Money? Museum Exhibitions and the Role of
Corporate Sponsorship“, bls. 213–223.
67 Sama rit, bls. 215.
68 Sama rit, bls. 220.
69 Gestur Guðmundsson, „Cultural Policy in iceland“, The Nordic Cultural Model,
ritstj. Peter Duelund, Copenhagen: nordic Cultural institue, 2003, bls. 113–145,
hér bls. 130–132.