Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2010, Blaðsíða 45
ÞEKKinG, ViRÐinG, VALD
45
hafnar; teningunum er kastað, hvað sem örlögin kunna að geyma.“60
Worm var ekki einn um að kenna til í stormum sinnar tíðar, sem feyktu
mörgum samtíðarmönnum út á þetta sama haf. Vöxtur fornfræðinnar
hélst raunar í hendur við vaxandi áhuga á sögu ríkisins og náttúrunnar og
við stofnanavæðingu móðurmálsins víðs vegar um Evrópu. Ein skýringin á
þessum vexti er sú að leggja varð drög að nýrri heimsmynd í kjölfar siða-
skipta og landafunda. Um leið tengdist þessi áhugi miðstýrðara stjórnarfari
í ríkjum álfunnar, styrkari tökum konunga og þeirri réttlætingu valdsins
sem samtvinnaði það sögunni, tungunni og fósturmoldinni.
Það afrek sem mest jók við orðstír Ole Worm á meðal lærðra manna í
Evrópu – jafnvel meir en safnið hans – er yfirlitsverk sem hann tók saman
um rúnasteina í Danaríki og kom út 1643, Danicorum Monumentorum.61
Eins og titillinn gefur til kynna deilir verkið ástríðu endurreisnarinnar
fyrir fornum minnisvörðum en heimfærir hana frá grískri og rómverskri
fornöld til norrænna miðalda. Rúnasteinarnir voru áþreifanlegur vitnis-
burður um sögu danska ríkisins og því kjörið viðfangsefni fyrir hinn nýja
efnislega skilning. Worm gerði teiknara út af örkinni um allt konungsríkið
til að gera nákvæma uppdrætti af minnisvörðunum og áletrunum þeirra.
Meginefniviðurinn kom þó úr sóknarlýsingum sem ritaðar voru samkvæmt
fyrirmælum konungs og sendar til kanslarans – æðsta embættismanns rík-
isins og næstráðanda konungs.
Þann 11. ágúst 1622 sendi kanslaraskrifstofan biskupum ríkisins bréf og
fól þeim að safna saman sóknarlýsingum frá prestum síns biskupsdæmis
ásamt skjölum sem gátu haft sögulegt gildi. Undir bréfið ritaði Kristján iV
konungur (1577–1648), en bréfinu fylgdi ítarleg spurningaskrá.
Spurningunum var raðað undir sex fyrirsagnir og leituðu upplýsinga um
söguleg skjöl, merkisstaði ásamt munnmælum um uppruna þeirra, siði og
tímatöl skráð með rúnaletri. Enn fremur voru prestar beðnir að skrá
nákvæmlega staðsetningu allra rúnastafa í sókn þeirra og rissa þá upp.62
Christian Friis frá Kragerup (1581–1639) gegndi þá embætti kanslara,
en frá embætti hans var spurningaskráin send og þangað bárust svörin.
60 „Qvæ tempestas me in altum illud Antiqvitatem abripuerit mare, nescio; portum
non video. Alea jacta est, utut fors cecident“, Ole Worm, Olai Wormii et ad eum
doctorum virorum epistolæ, i. bindi, bls. 50 (bréf 55); Ole Worm, Breve fra og til Ole
Worm, bls. 114.
61 Ole Worm, Danicorum monumentorum libri sex, Kaupmannahöfn: [útg. vantar],
1643.
62 Henrik Andreas Hens, Traditionsstof før 1817. En foreløbig rapport, óútgefin skýrsla
fyrir Dansk Folkemindesamling, Kaupmannahöfn, 1972, bls. 11.