Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2010, Blaðsíða 118
118
tíð.35 Í þessu sambandi hafa menningar- og minjasöfn haft lykilhlutverki
að gegna, eins og hér hefur komið fram.
Í tengslum við áróður hins opinbera, eins og hann birtist í öðrum
sambærilegum sjónrænum textum, hefur bókmenntafræðingurinn Bene-
dikt Hjartarson komið fram með áhugaverðar pælingar.36 Í grein sinni,
Fagurfræði áróðursins, beinir hann m.a. sjónum að hlutverki áróðurs í hug-
myndafræði og stjórnmálastarfi evrópskra alræðishreyfinga á fyrri hluta
20. aldar. Tók hann þar fyrir sérstaklega áróðursvélar þýska nasismans og
sovéska stalínismans sem óspart beittu fyrir sig sterku myndmáli m.a. í
kvikmyndum á borð við verk Leni Riefenstahl. Óvíst er hvort líta beri á
opinber menningar- og minjasöfn sem slík áróðurstæki ríkisvaldsins en
óneitanlega hafa slík söfn, og þá sérstaklega hin svokölluðu þjóðminjasöfn,
haft hlutverki að gegna þegar kemur að því að mæra „þjóðarheildina“ og
efla einingu hennar, eins og fram hefur komið hér. Í því skyni hafa „mik-
ilmenni“ þjóðarinnar iðulega fengið sérstakan sess sem og hinir ýmsu
menningarlegu hápunktar hennar. Engum blöðum er um það að fletta að
sjónrænir textar á borð við kvikmyndir og hvers kyns sýningar á menn-
ingarminjum hafa í gegnum tíðina haft geysilega mikilvægu hlutverki að
gegna þegar kemur að mótun sjálfmynda og ímynda þjóða, eins og
Benedikt og fleiri hafa bent á.37
Í þessu samhengi má einnig benda á aðferð hinna ýmsu minnihlutahópa
við að styrkja stöðu sína og verða sýnilegri; að nýta sér tækni kvikmyndar-
innar. Pólitískar áróðursmyndir þar sem deilt er á ríkjandi hugmyndafræði,
valdhafa eða stórfyrirtæki hafa verið áberandi á síðustu árum og ber líklega
að nefna bandaríska leikstjórann Michael Moore fyrstan í því sambandi. Á
innlendum vettvangi hafa slíkar myndir einnig verið vinsælar og nefni ég
hér aðeins fjórar nýlegar: Draumalandið eftir Andra Snæ Magnason, Konur
á rauðum sokkum eftir Höllu Kristínu Einarsdóttur, Viðfangið litla a eftir
Önnu Einarsdóttur og Magnús Snæbjörnsson og Sófakynslóðin eftir
Áslaugu Einarsdóttur. Óhætt er að segja að rödd andófs-, jaðar- og minni-
35 Guðmundur Hálfdánarson, „Þjóð og minningar“; Sigríður Matthíasdóttir, Hinn
sanni Íslendingur.
36 Benedikt Hjartarson, „Fagurfræði áróðursins. Um sigur viljans og kvikmyndagerð
í Þriðja ríkinu“, Heimur kvikmyndanna, ritstj. Guðni Elísson, Reykjavík: Forlagið,
1999, bls. 318–336.
37 Sjá t.d. Íris Ellenberger, Íslandskvikmyndir 1916–1966. Ímyndir, sjálfsmynd og vald,
Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, 2007; Sigurjón Baldur Hafsteinsson
og Tinna Grétarsdóttir, „Kalda stríðið og kvikmyndasýningar stórveldanna 1950–
1975“, Saga, 1/2006, bls. 81–121.
KATLA KJARTAnSDÓTTiR