Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2010, Blaðsíða 35
35
ÞEKKinG, ViRÐinG, VALD
Efnisleg þekking
Að safna saman þekkingu, öðlast virðingu og hrúga saman hlutum – þetta
þrennt rann hér um bil saman í eitt í verkum virtúósanna. Í þeirra með-
förum varð þekking svo að segja að áþreifanlegum verðleika – virtú eða
„virðugheitum“. Virtúósinn var holdtekja þessa verðleika, en verðleikarnir
bjuggu líka í hlutunum sjálfum. Virðingarhlutir fólu í sér þekkingu sem
virtúósinn kunni skil á og gat leyst úr læðingi og miðlað til gestanna sem
heimsóttu furðustofuna.
Í bréfi sem Ole Worm sendi gömlum pennavini sínum 20. júní 1639
útskýrir hann hugsunina sem lá safni hans til grundvallar:
Hvað sýninguna á furðuverkum í safni mínu varðar hef ég enn
ekki lokið við hana. Ég hef safnað munum víða að á ferðalögum
mínum, og frá indlandi og öðrum fjarlægum stöðum hafa mér
borist margvísleg jarðvegssýni, steinar, málmar, plöntur, fiskar,
fuglar og landdýr sem ég varðveiti vandlega til að geta, ásamt
með stuttri kynningu á sögu hinna ólíku hluta, fært áhorfendum
mínum hlutina sjálfa svo að þeir megi snerta þá með eigin hönd-
um og sjá þá með eigin augum, svo að þeir geti sjálfir metið
hvernig það sem sagt er um hlutina kemur heim og saman við
hlutina sjálfa og þar með öðlast nákvæmari þekkingu á þeim
öllum.29
Með áherslunni á mikilvægi reynslunnar, að snerta með eigin höndum og
sjá með eigin augum, kemur Ole Worm orðum að þekkingarfræði virtúós-
anna sem er í senn áþreifanleg og hlutgerð. Þessa vísindalegu efnishyggju
ber þó jafnframt að skilja með hliðsjón af efnishyggjunni sem einkenndi
endurreisnina almennt. Söfnun var vissulega mikilvægur hluti af þekking-
arsköpun, en hún fól líka í sér sýnilega neyslu, og sýnileg neysla var mikils
29 „Historiam rariorum in Musæo meo contentorum qvod concernit, eam nondum
ad umbilicum perduxi. Collegi in peregrinationibus meis, ac indies ex indiis ali-
isqve locis remotissimis ad me adferentur varia, terrarum, lapidum, metallorum,
vegetabilium, piscium, avium, animalium terrestrium species, qvas diligenter
asservo eum in finem, ut cum singulorum historiam breviter avditoribus propo-
suero, rem ipsam illis manibus palpandam et oculis videndam objiciam, ut an
rebus congruant qvæ dicantur ipsimet judicent, ac omnium scientiam sibi aqvirant
exactiorem“, Ole Worm, Ole Worm’s correspondence with Icelanders, bls. 58 (bréf 26);
Ole Worm, Breve fra og til Ole Worm, ii. bindi, bls. 132.