Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2010, Blaðsíða 93
93
Á MiLLi SAFnA: úTRÁS Í (LiSTA)VERKi
125 ár væru liðin frá því að forfeður þeirra settust að við Winnipeg-vatn í
Manitoba. Íslenska landafundanefndin og Hátíðanefndin-125, sem var
stofnuð fyrir hvatningu íslenskra stjórnvalda, störfuðu náið saman. Há -
tíðanefndin-125 var mikilvæg í uppbyggingu tengslanets á milli Íslands og
íslensk-kanadískra félaga víðsvegar í Kanada. Hátíðanefndin-125 var ekki
síður mikilvæg fyrir íslensk stjórnvöld þar sem hún gat t.d. sótt um fjár-
magn í kanadíska sjóði til að fjármagna hátíðahöldin. Formaður nefnd-
arinnar var áðurnefndur David Gislason. Að sögn Davids mátti rekja hug-
myndina um að færa að gjöf afsteypu af höggmynd Ásmundar, til
heimsóknar hans til Íslands árið 1994 þegar hann tók þátt í þingi Þjóð-
ræknisfélags Íslendinga. Á meðan á heimsókninni stóð var David viðstadd-
ur þegar afsteypa af Fyrstu hvítu móðurinni í Ameríku var afhjúpuð í
Glaumbæ í Skagafirði, af þáverandi forseta, Vigdísi Finnbogadóttur. Íbúar
Skagafjarðar höfðu meðal annarra leitað til afkomenda Vestur-Íslendinga
um að þeir færðu Íslendingum þessa gjöf í tilefni af 50 ára afmæli íslenska
lýðveldisins. Söguhetjan Guðríður hefur sannarlega fengið sess í menn-
ingartengdum ferðaiðnaði Skagafjarðar og laðar að ferðamenn, ekki síst
fólk af íslenskum ættum úr Vesturheimi, eins og ég mun koma að síðar. Í
viðtali mínu sagði David að hann hefði verið hrærður við athöfnina og
orðið mjög heillaður af sögu Guðríðar. Hann lýsti því yfir í viðtali við
Morgunblaðið að höggmyndin hefði mikla þýðingu fyrir Kanadabúa af
íslenskum ættum, ekki síst vegna þess að:
Saga hennar er svo máttug og tengir okkur svo vel saman, að mér
finnst hún hljóti að vera sterkur þráður í örlögum íslensku þjóð-
arinnar. Guðríður bjó með manni sínum um þriggja ára skeið í
Kanada (Vínlandsgátan bls. 96). Þar fæddi hún Snorra, sem við
Vestur-Íslendingar eignum okkur. Hann er fyrsti Íslendingurinn
sem fæðist í Kanada…. Svo undarlega vildi til að tvær afsteypur
voru gerðar af „Fyrstu hvítu móður Ameríku“ eftir Ásmund
Sveinsson (hin í Glaumbæ). Seinni styttan fer til Ottawa og
verður gjöf íslensku þjóðarinnar til afkomenda Íslendinga vest-
anhafs. Segðu svo að þetta sé ekki örlagaþrungið!45
45 Árni Sæberg, „Ísland þúsund ár á aldamótaári í Vesturheimi“, Morgunblaðið, 3.
janúar 1999. Vefslóð: http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=440732.
Sótt 6. janúar 2002.