Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2010, Blaðsíða 68
LOFTUR ATLi EiRÍKSSOn
68
Landsvirkjun er í takt við tíðarandann, en eins og hagfræðingurinn
Roland Kushner bendir á hefur kostun á menningastarfi jákvæð áhrif á
ímynd fyrirtækja gagnvart fyrirtækjum sem þau eiga í viðskiptum við.29
Það getur því verið mikilvægt fyrir Landsvirkjun að hafa menningarlegt
yfirbragð gagnvart erlendum viðskiptavinum sínum og kostun á viðburði á
Tvíæringnum í Feneyjum staðfestir menningar- og samfélagslega vigt fyr-
irtækisins. Steingrímur Eyfjörð var valinn fremstur íslenskra myndlistar-
manna þetta ár og Landsvirkjun getur vart hafa fundið glæsilegri og virtari
menningarviðburð til að eigna sér hlutdeild í með því að merkja hann fyr-
irtækjamerki sínu. Verk Steingríms ríma jafnframt vel við þá kjarnaímynd
sem Landsvirkjun reynir að skapa sér með endurtekinni vísan til menn-
ingar, náttúru, hreinleika og þjóðernis.
Landsvirkjun metur með reglulegum hætti þann árangur sem kostun
fyrirtækisins á menningarviðburðum hefur og hluti þess er að vinna kann-
anir um afstöðu og viðhorf almennings til fyrirtækisins. Með nokkrum
rétti má halda því fram að starfsemi Landsvirkjunar sé karllæg (eins og hún
birtist t.d. í beislun náttúruafla með þungavinnuvélum) og kemur það því
ekki á óvart að í könnunum eru karlmenn yfirleitt miklu jákvæðari í garð
fyrirtækisins en konur.30 Kannanir hafa leitt í ljós að Landsvirkjun er síst
metin af vel menntuðum tekjulágum konum í Reykjavík en á móti eru þær
í hópi mikilla menningar- og listaneytenda. Að mati forsvarsmanna fyrir-
tækisins er sú vitneskja þýðingarmikil staðfesting á mikilvægi þess að hald-
ið verði áfram stuðningi við söfn og listastarfsemi.31
Landsbankinn – ímynd og mörkun
Einkavæðing Landsbanka Íslands og tilkoma Björgólfs Guðmundssonar í
stól formanns bankaráðs Landsbankans markaði ákveðin tímamót í kostun
stórfyrirtækja á menningarviðburðum hérlendis. Bankinn átti fyrir mynd-
arlegt listaverkasafn og hafði stutt reglulega við stærri menningarviðburði
líkt og Listahátíð í Reykjavík án þess að leggja sig sérstaklega fram við að
vekja athygli á þeim stuðningi. Björgólfur kappkostaði hins vegar að
29 Roland Kushner, „Positive Rationales for Corporate Arts Support“, Art and
Business: An International Perspective on Sponsorship, ritstj. Roseanne Martorella,
Westport: Praeger Publishers, bls. 235–246, hér bls. 242–243.
30 Þorsteinn Hilmarsson, munnleg heimild, 4. desember 2008.
31 Sama heimild.