Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2010, Blaðsíða 18
ÁstRÁðuR EystEinsson
18
Söfn einstaklinga og borga
Í grein sem þýski hugvísindamaðurinn Walter Benjamin skrifaði um
bókasafn sitt, í tilefni þess að hann er að taka það upp úr kössum eftir
flutninga, leiðir hann lesendur um dularslóðir hins persónulega safns
bókaormsins: „það sem mér liggur á hjarta er að veita ykkur innsýn í
samband bókasafnara við gripi sína, innsýn í söfnunaráráttuna mun frem-
ur en í safnið sjálft.“ Og „hvað er þetta safn annað en skipulagsleysi þar
sem vaninn gerði sig svo heimakominn að það getur litið út eins og skipu-
lag?“ Eftir að hafa rætt um söfnunina og vikið að þeim minningum sem
einstakar bækur kalla fram, meðal annars um borgir þar sem hann fann
bækur, andvarpar hann: „Sæla safnarans, sæla hins óháða manns!“ Og þó
að opinber söfn séu nytsamleg er það einungis í einkasöfnum „sem mun-
irnir hljóta þann sess sem þeim ber.“16 Með því er Benjamin alls ekki að
vísa til peningalegs verðmætis safnsins, heldur þeirra persónulegu tengsla
sem safnarinn myndar við það.
Undir lok greinar sinnar hefur Benjamin orð á því að sú gerð safnara
sem hann lýsir sé um það bil að deyja út. Störf og áhugamál Benjamins
sjálfs bera þess þó merki að þessi tegund söfnunar hafi enn þrifist með
ágætum þegar hann var og hét og raunar fundið sér ýmsan farveg.
Benjamin var sjálfur ekki aðeins bókasafnari, heldur var hann löngum
ötull safnari tilvitnana, þ.e.a.s. margskonar textabrota sem tengdust oftar
en ekki borgarlífinu og þá sérstaklega Parísarborg á nítjándu öld. Safn
(skipulag og skipulagsleysi) þessara Parísar-tilvitnana átti að verða lykil-
þáttur í miklu verki sem hann nefndi stundum Passagen-Werk. Hann vann
við samantekt þess frá 1927 en lést frá því óloknu 1940.17
Mörg bókmenntaverk eru raunar þannig gerð að þau virka sem safn
minninga (sem eru eðlisskyldar tilvitnunum). Minningarnar raða sér æ og
aftur með margvíslegum hætti inn í samtímavitund og líf og eiga drjúgan
þátt í því leiksviði sem mannshugurinn er hverju sinni. Eitt frægasta
dæmið um slíkt minningaverk er raunar mikil skáldsaga sem Benjamin
hafði dálæti á og skrifaði um: Í leit að glötuðum tíma eftir Marcel Proust.
Sum þeirra „safnverka“ myndlistarinnar sem áður var drepið á eru
16 Walter Benjamin, „Ég dreg bókasafnið mitt fram í dagsljósið. Erindi um söfnun“,
þýðandi Jón Bjarni Atlason, Fagurfræði og miðlun, ýmsir þýðendur, ritstj. Ástráður
Eysteinsson, Reykjavík: Háskólaútgáfan/Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands,
2008, bls. 309–320, hér bls. 309, 310 og 319.
17 Handrit Benjamins að Das Passagen-Werk var gefið út 1982. Það hefur einnig birst
í enskri þýðingu og nefnist The Arcades Project á því máli.