Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2010, Blaðsíða 149
SAFnFRÆÐSLA: STAÐA OG (Ó)MÖGULEiKAR
149
um, lið fyrir lið, og hins vegar á virkan hátt. Þessa kenningarása setur Hein
saman til að útskýra stöðu hugsmíðahyggju.62
Hein telur fræðslustefnu safna nauðsynlega því að án hennar vanti allar
skilgreiningar og tilgang í fræðsluna. Mikilvægt er að fræðslustefna safna
sé meðvituð – annars er hætta á misvísandi skilaboðum sem gera safngest-
um erfiðara fyrir og minnka líkur á að reynslan verði góð eða upplifunin
varanleg. Allt umhverfi safna er hluti af fræðslustefnu safns; allt frá bygg-
ingu, merkingum og framkomu starfsfólks. Hún verður að vera bæði af
þekkingarfræðilegum og kennslufræðilegum toga.63 Ómeðvitaðri fræðslu-
stefnu safna líkir Hein við ómeðvitaða foreldra sem senda misvísandi
skilaboð til barna sinna.
Fyrir hverja er safnfræðsla?
Skólahópar, ferðamenn og fjölskyldur eru þrír grunnhópar safngesta er
þiggja eða nýta sér safnfræðslu. Kennslufræðilegur grunnur safnfræðslu er
oftar en ekki tengdur leiðsögn skólahópa þar sem safnkennari skipuleggur
heimsóknir nemenda allra skólastiga í samvinnu við kennara.64 Leiðsögn
eða móttaka ferðamanna er einnig mikilvægur liður í fræðslustarfi safna.65
Fræðsla ætluð fjölskyldum á söfnum stendur til boða að einhverju leyti í
söfnum landsins en hefur lítið verið rannsökuð fyrir utan rannsóknina
Góðar stundir: Safnfræðsla og fjölskyldur sem undirrituð framkvæmdi 2005–
2007 og þessi grein byggir að hluta til á. Rannsóknin var viðamikil vett-
vangsathugun er tók til 25 safnaheimsókna í tveimur lotum. Fylgst var
með þremur fjölskyldum með börn á aldrinum átta til tíu ára heimsækja
fimm söfn á Eyjafjarðarsvæðinu. Safnaheimsóknir voru skráðar myndrænt
og með óformlegum samtölum. Í fyrri heimsóknalotu fóru þátttakendur á
fimm söfn: Flugsafn Íslands, iðnaðarsafnið á Akureyri, Listasafnið á
Akureyri, Minjasafnið á Akureyri og Smámunasafn Sverris Hermannssonar
í Eyjafjarðarsveit. Í seinni lotu fengu þátttakendur að velja tvö af söfnunum
sem áður voru heimsótt og fengu þá með sér frumgerð af svokölluðu safn-
abelti sérstaklega samansettu fyrir rannsóknina. Safnabeltið innihélt valin
námsverkfæri, þ. á m. 16 spjalda safnastokk sem eitt af námsverkfærum
62 Sama rit, bls. 25.
63 Sama rit, bls. 15.
64 Safnastefna á sviði þjóðminjavörslu fyrir árin 2003–2008, Reykjavík: Menntamála-
ráðuneytið, 2003, bls. 26.
65 Guðbrandur Benediktsson, Museums and tourism: Stakeholders, resource and sustai-
nable development, óbirt meistaraprófsritgerð: Gautarborgarháskóli, 2004.