Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2010, Blaðsíða 60
LOFTUR ATLi EiRÍKSSOn
60
lega opnuð í tengslum við málþing sem fram fór í tilefni 60 ára afmælis
Byggðasafnsins í Skógum og færði það viðburðinum í senn fræðilega vigt
og tengingu við marglofaðan menningararf Íslendinga.
Meðal þátttakenda í Safnahelgi á Suðurlandi voru Landsvirkjun og
Orkuveita Reykjavíkur en bæði fyrirtækin hafa lagt sig fram við að byggja
upp sterk tengsl við söfn, sýningar og menningar- og listastarfsemi á síð-
ustu árum. Þessi starfsemi er oftast fléttuð saman við upplýsinga- og
fræðslustarf fyrirtækjanna sem vilja gera orkustöðvar sínar að viðurkennd-
um áfangastöðum ferðamanna. Menningar- og listastofnanir njóta virð-
ingar og trausts í samfélaginu og á síðustu árum hafa stórfyrirtæki á Íslandi
sýnt samstarfi við þær aukinn áhuga með það að markmiði að bæta ímynd
sína. Ég hef kallað þessa tilhneigingu „menningarvæðingu viðskiptalífsins“
en þessi grein er byggð á nokkrum þáttum úr rannsókn sem fjallar um
áhrif stefnu íslenskra stórfyrirtækja í styrkveitingum til menningarmála á
menningarstofnanir á árunum 2002–2008.5 Rannsóknargagna var aflað
með opnum hálfstöðluðum einstaklingsviðtölum við stjórnendur eða
millistjórnendur sex menningarstofnana og tveggja stórfyrirtækja. Stór-
fyrirtækin sem ég beindi sérstaklega sjónum að voru Landsbanki Íslands
og Landsvirkjun. Viðtöl við fulltrúa þeirra, Þorstein Hilmarsson, upplýs-
ingafulltrúa Landsvirkjunar, og Þórmund Jónatansson, deildarstjóra sam-
félagsmála og viðburða hjá Landbanka Íslands, voru mikilvæg lýsandi
gögn við úrvinnslu rannsóknarinnar. Þeir lögðu báðir áherslu á að kostun
menningar og lista væru þýðingarmikill þáttur í samfélagsþátttöku
Landsbankans og Landsvirkjunar en hugmyndin um svonefnda samfélags-
lega ábyrgð fyrirtækja naut talsverðrar hylli á tímabilinu 2002–2008 þótt
skilgreining á hugtakinu væri nokkuð á reiki á Íslandi. Samkvæmt henni
skuldbinda fyrirtæki sig til lengri tíma að koma fram af virðingu við samfé-
lagið og umhverfið með starfsemi sinni.6
5 Rannsóknina vann ég við Háskólann á Bifröst á árunum 2008–2009 undir heitinu
Viðskiptavæðing menningarlífsins og menningarvæðing viðskiptalífsins: Áhrif stefnu
íslenskra stórfyrirtækja í styrkveitingum til menningarmála á menningarstofnanir á
árunum 2002 til 2008.
6 Hulda Steingrímsdóttir, Translation of Corporate Social Responsibility (CSR), –
Perceptions of Internationally Experienced Icelandic Managers of practices of CSR in the
Icelandic Business Community, Gautaborg: Business School of Economics in
Gothenburg, 2006, bls. 38–50.