Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2010, Blaðsíða 11
SÖFnUn OG SýninGARRýMi
11
Svæði verður sýningarrými
Um sinn skal dvalið við safnið sem stað er aðkomufólk sækir heim, gestir
sem ekki eiga heima í byggðarlagi safnsins. Slíkir staðir eða „setur“ – og
sum hver geta vart talist „söfn“ nema í víðum skilningi orðsins – hafa
sprottið upp út um allt land á síðustu árum og sérsvið þeirra eru hvalir,
reðir, draugar, selir, galdrar og svo framvegis. Sumir staðanna tengjast
íslenskum miðaldabókmenntum. Mér þótti það einkennileg reynsla, fyrir
fáeinum árum, að verða vitni að því hvernig æskuslóðunum og gamla
þorpinu mínu, Borgarnesi, var breytt í „safn“ eða sýningarrými. Er ég óx
þar úr grasi vissi ég vel að þetta voru lendur Egils Skallagrímssonar; að
faðir hans var einn af landnámsmönnum Íslands í árdaga; enn fremur að
Egill hefði verið skáld og söguhetja í einni frægustu og litríkustu
Íslendingasögunni. Þótt götur í Borgarnesi heiti margar eftir persónum í
Eglu og ég hafi sjálfur átt heima við Egilsgötu, voru einu sjónrænu minj-
arnar haugur nokkur í lystigarði þorpsins þar sem faðir og sonur Egils ku
báðir hafa verið lagðir til hinstu hvílu. Þetta gerbreyttist árið 2006 þegar
Landnámssetrið var opnað í Borgarnesi með tvær fastasýningar sínar,
Landnámssýninguna og Egilssýninguna, og með nýjum kennileitum,
vörðum sem komið var fyrir á nokkrum stöðum sem skipta máli í Eglu –
stöðum sem eru m.a. heimsóttir í sérstökum kynnisferðum á vegum set-
ursins. Óhætt er að segja að þetta setur, ásamt sýningum sem það stendur
fyrir, m.a. leikritum byggðum á Eglu, hafi notið hylli og það hefur fengið
opinberar viðurkenningar.
Á vefsvæði setursins má lesa, raunar á ensku, eftirfarandi yfirlýsingu:
„The Sagas – iceland’s most important cultural heritage“.7 Jafnframt er þó
tekið fram að Landnámssetrið sé ekki „safn“ þessarar mikilvægustu menn-
ingararfleifðar Íslands; það sé fremur innsetning þar sem nútímatækni sé
beitt til að veita sýningargestum ákveðna beina reynslu af því sem gerðist
er siglt var um opið haf til að setjast að á ókunnum slóðum: „it is not a
museum but rather an installation. Multi-media and theatrical techniques
are employed to help the visitor experience first hand the trepidation and
excitement of setting off over the open ocean for lands unknown.[...] A
complete circuit of each exhibition takes about 30 minutes.“8
7 Landnámssetur Íslands, Vefslóð: http://www.landnam.is. Sótt 13. febrúar 2010.
8 Landnámssetur Íslands. Vefslóð: http://english.landnam.is/default.asp?Sid_id=
27656&tid=1&Tre_Rod= 002|&qsr. Sótt 13. febrúar 2010. Hér mætti ef til vill
spyrja hvort þetta sé dæmi um það hvernig sýningar sem þessar geti hneigst í átt til
skemmtanahlutverks á kostnað gagnrýninnar söguskoðunar, eða hvort fyrst og