Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2010, Blaðsíða 30
30
VALDiMAR TR. HAFSTEin
sýnis í einu herbergi, í furðustofunum, eða á smáskika af landi, í grasagörð-
unum. Þessi rými vitnuðu um þekkingu og vald, og vöktu fyrir vikið bæði
undrun og forvitni. Þau endurspegluðu almenna þróun þessa tíma; sú
samþjöppun þekkingar sem safnið fól í sér var hliðstæð við aukna sam-
þjöppun pólitísks valds á sama tímabili, sem glöggt má merkja af uppgangi
heimsvaldastefnunnar og þeim valdatengslum miðju og jaðars – móður-
lands og nýlendna – sem einkenndi evrópsku heimsveldin. Samþjöppun
valds var þá einnig mikil innan ríkja Evrópu enda voru 17. og 18. öldin
tími einveldisins víða í álfunni.
Tengslanet þekkingar
Það var undir þessum kringumstæðum sem Ole Worm skipaði sér á bekk
með „virtúósum“ síðendurreisnarinnar. Worm var sannkallaður endur-
reisnarmaður, forfallinn safnari og fjölfræðingur. Hann skipar heiðurssess
í menntasögu Dana og m.a.s. á Íslandi hefur hann stundum verið nefndur
faðir norrænnar fornfræði (Svíar eiga að vísu aðra kandídata í það emb-
ætti).12 Þar með hefur nafn hans verið tengt forsögu ýmissa nútímafræði-
greina, meðal annars safnafræði, fornleifafræði, textafræði og þjóðfræði.
Ole Worm kom á fót frægu safni sem varð grunnur að þjóðminjasafni
Dana og hafði frumkvæði að því að spurningaskrár um þjóðhætti og forn-
minjar voru sendar til sóknarpresta í Danmörku og noregi. Hann ritaði
mikið verk um rúnir og hann safnaði og gaf út bæði þjóðfræðaefni og bók-
menntir frá miðöldum.
Worm var annars prófessor í læknisfræði við háskólann í Kaupmannahöfn
og læknir að aðalstarfi. ýmsir frammámenn dansks samfélags reiddu sig á
læknisþjónustu hans, m.a. Christian Friis kanslari og Holger Rosenkrantz
höfuðsmaður yfir Íslandi, en auk þess leituðu ráða hjá honum krónprins-
inn Christian, konungsdóttirin og kóngurinn sjálfur. Þess má svo geta að
Worm sendi íslenskum samverkamönnum og pennavinum sínum bæði
læknisráð og lyf yfir hafið, þ.á m. Arngrími lærða Jónssyni, Þorláki Skúla-
syni Hólabiskupi og þeim Gísla Oddssyni og Brynjólfi Sveinssyni Skál-
holts biskupum.13
12 T.d. Halldór Hermannsson, „Ole Worm“, Ársrit Hins íslenska Fræðafélags í Kaup-
mannahöfn 2, 1917, bls. 44; Gils Guðmundsson, „Faðir norrænnar fornfræði“,
Gestur. Íslenskur fróðleikur gamall og nýr, ritstj. Gils Guðmundsson, Reykjavík:
iðunn, 1988, bls. 186–194.
13 Ejnar Hovesen, Lægen Ole Worm 1588–1654. En medicinhistorisk undersøgelse og
vurdering, Århus: Aarhus Universitetsforlag, 1987, bls. 211–230.