Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2010, Blaðsíða 36
36
metin meðal aðals og borgarastéttar á endurreisnartímanum. Það má
t.a.m. greina á málverkum þar sem háttsettir einstaklingar voru jafnan
umkringdir veraldlegum eignum sínum, enda voru eignirnar mælikvarði á
mikilfengleika fólksins á myndinni.30 Að þessu leyti er söfnun eitt af fræ-
kornum kapítalismans sem sáð var á nýöld. Safnararnir öðluðust virðingu í
krafti þeirra hluta sem þeir sönkuðu að sér, sögðu deili á og voru sífellt
umkringdir. Virðingin var í raun eiginleiki þessara hluta, sem virtúósarnir
öðluðust hlutdeild í. Þannig raungerðu söfnin m.a. þessa hugmynd sem
var í deiglunni við upphaf nútímans; að eignirnar mældu ágæti eigand-
ans.31
Með söfnun á framandi, fornum og fríkuðum hlutum mótuðu safnar-
arnir sjálfa sig sem þekkingu holdi klædda – sem virtúósa. Safnið er þannig
bæði sköpunarverk eiganda síns og skapari hans. Saman endurspegla safn-
ið og safnarinn þá sérstöku birtingarmynd nútímans sem greina mátti í
norður-Evrópu á 17. öld og áttu jafnframt þátt í að móta hana. Safnið
þjappaði saman heimsmyndinni og speglaði hana á táknrænan hátt í safn-
gripunum og skipulagi þeirra. Með því að flokka veröldina og stilla henni
fram með kerfisbundnum hætti gaf safnið til kynna að safnarinn hefði
þennan risavaxna og flókna heim á sínu valdi – og þessu valdi deildi hann
með velgjörðarmanni sínum, eða patrón, sem studdi við bakið á honum.
Safnskráin
Þegar um miðbik 15. aldar hafði prentverkið gert lesendum á víð og dreif
um Evrópu kleift að lesa sömu texta og skoða sömu myndir á sama tíma.32
Hinir nýju fagmenn veraldlegrar þekkingar á 16. og 17. öld nýttu til fulln-
ustu þau tækifæri sem prenttæknin gaf þeim til að margfalda og miðla
þekkingu sinni og orðstír. Á þessu tímabili varð ný bókmenntategund til:
Safnskráin. Með safnskránni bjuggu virtúósarnir til tækni sem gat um-
breytt hlutum í orð og komið þeim þannig í umferð, en í skránum töldu
þeir upp alla safngripina og útlistuðu í löngu máli þá þekkingu sem bjó í
hverjum hlut. Safnskráin gerði söfnurunum kleift að ná til mun stærri og
30 Lisa Jardine, Worldly Goods. A New History of the Renaissance, new York, London,
Toronto, Sydney, Auckland: nan A Talese, Doubleday, 1996, bls. 8–19.
31 Marjorie Swann, Curiosities and Texts, bls. 5–6.
32 Elizabeth L. Eisenstein, The Printing Press as an Agent of Change. Communications
and Cultural Transformations in Early-Modern Europe, ii. bindi, Cambridge,
London, new York, new Rochelle, Melbourne, Sydney: Cambridge University
Press, 1979, bls. 53.
VALDiMAR TR. HAFSTEin