Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2010, Blaðsíða 158
ALMADÍS KRiSTinSDÓTTiR
158
frá 18–75 ára og náði hún bæði til fólks á landsbyggðinni og á höfuðborg-
arsvæðinu.101 Algengasta viðhorfið sem kom í veg fyrir að þátttakendur
sæktu eða tækju þátt í menningarviðburðum var tímaleysi, áhugaleysi eða
þreyta (bls. 47). Tölur segja ekki mikið um gildi og gæði safnheimsókna en
lítið gagn er af safnfræðslu ef gestir eru ekki til staðar á söfnum. Eitt helsta
markmið safnfræðslu er að skapa tengsl á milli safneignar eða sýninga og
þarfa eða áhuga safngesta.102 Safnfræðsla felst í því að hjálpa safngestum,
hvort sem þeir eru í hópi eða ekki að fá sem mest út úr heimsókn sinni.
Söfn eru skuldbundin til að gera sem mest úr ánægjulegri upplifun í gegn-
um þekkingu, sérstaklega þekkingu á öðrum menningarheimum og öðrum
stöðum.103 Fólk lærir vissulega á mismunandi hátt og verða því tækifæri til
menntunar á söfnum að vera mörg og fjölbreytt. Dæmi um vel heppnaða
samvinnu sýnenda (listamanna í þessu tilviki), sýningastjóra, hönnuða og
fræðsludeildar á safni var sýning Ólafs Elíassonar, Frost Activity, í Listasafni
Reykjavíkur í byrjun árs 2004. Hluti sýningarinnar var eins konar virkni-
herbergi þar sem safngestir gátu raðað saman módelum og líkönum úr
plastkúlum og stöngum í ákveðnum hlutföllum og séð samskonar pælingar
á „vinnustofu“ listamannsins í næsta sal. Þá var sjónræn upplifun í spegil-
klæddu lofti sýningarsalar Hafnarhúss mjög sterk sem gerði það að verk-
um að gestir dvöldu löngum stundum í sýningarsölum við það eitt að
horfa og uppgötva verkið. Sýningin var mærð fyrir fjölbreytta og skemmti-
lega upplifun. Ragna Sigurðardóttir lýsti fræðsluframboði safnsins reyndar
sem jaðarefni [!] en taldi listsmiðjur fyrir alla fjölskylduna, fyrirlestra og
listamannsspjall vera fræðsludeild safnsins til mikils sóma.104 Annað dæmi
frá Skotlandi er afar forvitnilegt verkefni sem kallast „The Rule of Thumb
Programme“ en Listasafnið í Glasgow, GoMA, stendur fyrir sýningum
annað hvert ár þar sem myndlist og ýmis konar mannréttindi fléttast
saman. Fræðsluhlutverk safnsins samræmist fyrrnefndri fræðslu- og safna-
stefnu Skota og mikið er lagt upp úr því að safngestir fái að tjá sig t.a.m. í
rými sem GoMA kallar „The Response Space“. Þar, líkt og á sýningu
Ólafs Elíassonar, er gert ráð fyrir því að gestir á öllum aldri geti slakað á og
gefið sér tíma til að kynna sér viðfangsefni sýninganna betur og glíma við
101 Sama rit, bls. 3–6.
102 Eilean Hooper-Greenhill, Museum and gallery education, bls. 3.
103 Sama rit, bls. 68.
104 Ragna Sigurðardóttir, „Stendur undir væntingum“, Morgunblaðið, 18. janúar 2004.
Vefslóð: http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=775691. Sótt 14.
nóvember 2009.