Skírnir - 01.01.1961, Side 64
62
Einar Laxness
Skimir
hér að framan. Fræðastörfin voru þó að sjálfsögðu engan
veginn óskyld stjórnmálastarfi hans, — heldur öllu fremur
uppistaða þess og ívaf. Á sviði íslenzkra fræða, sem Jón sneri
sér að fljótlega, þegar hann var setztur að í Höfn, gerðist
hann slíkur vísindamaður, samvizkusamur, vandvirkur og
gagnrýninn, svo að af bar, og hann verður átrúnaðargoð
manna í þeim efnum. Fyrst og fremst var það sem sagnfræð-
ingur, en saga þjóðar hans átti frá upphafi hug hans óskipt-
an. Hér skal þess freistað í sem stytztu máli að drepa á helztu
vísindastörf, sem Jón vann að.
Svo má telja, að fyrstu skref vísindalegrar starfsemi hans
megi rekja til mikils verks, sem honum var falið að vinna
að 1838: Yfirliti yfir skjöl varðandi sögu Dana og samning
efniságrips þeirra, — „Regesta diplomatica historiæ Danicæ“.
Var þetta geysistórt rit að vöxtum, svo sem að líkum lét, og
var Jón við það bundinn til 1842. Skjalarannsóknir Jóns á
þessum árum áttu eftir að koma að góðu haldi fyrir hann
við síðari störf hans, ekki sízt í rannsóknum íslenzkrar sögu,
eins og vikið verður að.
Einkum var það við þrjár stofnanir, sem vísindastörf Jóns
eru tengd: Árna Magnússonar-stofnun, Konunglega norræna
fornfræðafélagið og Hið íslenzka bókmenntafélag.
Tveimur árum eftir komu sína til Hafnar tengdist Jón
Árnasafni traustum böndum, er hann gerðist þar styrkþegi
1835, sem áður segir. Eftir 1848, er hann var kjörinn ritari
Árnanefndar, uxu störf hans þar mjög, enda launuð atvinna.
Hafði hann umsjón með útgáfum, störfum styrkþega og samn-
ing árlegra skýrslna nefndarinnar. Er tímar liðu, öðlaðist
hann betri kunnleika á Árnasafni en nokkur annar og samdi
hann m. a. ýtarlega skrá yfir safnið, þar sem hverju handriti
var lýst. Verk það var eðlilega afar torsótt, enda varð því
ekki lokið, en gott verk unnið, sem gert var. Kom þar fyrir
tilstilli Jóns í leitirnar margt handritið, sem mönnum var
ókunnugt um áður. Þá má geta hér, að árið 1841 hafði hann
farið til Svíþjóðar ásamt Ölafi Pálssyni, siðar dómkirkjupresti
í Reykjavík, á vegum Árnanefndar og Fornfræðafélagsins í
þeim tilgangi að rannsaka íslenzk handrit, er þangað voru