Skírnir - 01.01.1961, Qupperneq 88
86
Bo Almqvist
Skírnir
veginn nákvæmlega, hvenær sögnin vill vera láta, að hún hafi
gerzt. Þá mætti spyrja: Að hve miklu leyti má treysta því, að
munnmælin hermi rétt um höfunda kraftavísna og tildrög?
Stundum getur hugsazt, að höfundur vísna sé sá, sem sagður er
í sögnunum, en sögnin sjálf og tildrögin séu allmiklu yngri.
Ekki er hægt að skera úr um slíkt nema með nákvæmum rann-
sóknum hverrar sagnar fyrir sig — ef yfirleitt er unnt að kom-
ast að öruggum niðurstöðum. —
Þó virðist mér, að treysta megi að allmiklu leyti munnmæl-
um um, hver sé höfundur hinnar eða þessarar ákvæðavísu.
Varkárni er dygð, en hún getur gengið of langt. Oft er hægt
að sannreyna munnmælin. Sumar vísur, t. d. eftir Pál skálda
og Bólu-Hjálmar, eru til í eiginhandarritum höfundanna og
eignaðar þeim í munnmælum enn í dag. Eða tökum vísuna
eftir Hallgrím Pétursson um tófuna, sem hvert mannsbarn
kannast við:
Þú sem bítur bóndans fé,
bölvuð í þér augun sé,
stattu þar sem stofn á tré,
stirð og dauð á jörðunne.
Sú vísa er fyrst prentuð í Gesti Vestfirðingi V. árgangi
(1855) í þætti um Hallgrím eftir Gísla Konráðsson. Ég hef
orðið þess var hjá mörgum Islendingum, að þeir eiga bágt með
að sætta sig við, að hún sé í raun réttri eftir Hallgrím. Ef til vill
er það ekki aðeins vegna heimildaskorts, heldur vegna þess, að
mönnum finnst vísan ekki að öllu leyti samboðin sálmaskáld-
inu mikla. Vísan og sögnin eru til í mörgum tilbrigðum, en
áldrei hef ég heyrt hana eignaða öðrum manni. Fyrir nokkru
fann ég vísuna í tveimur handritum í Landsbókasafni frá 18.
öld, eignaða séra H. P. og séra Hallgrími,20) og er þó ekki lengra
frá dauða Hallgríms en t. d. frá dauða Páls skálda og til þeirra
vísna eftir hann, sem eru enn á vörum alþýðunnar og auk þess
í eiginhandarriti. Mætti gefa önnur slík dæmi, og tel ég nokk-
urn veginn öruggt, að þær vísur, sem eru eignaðar tilteknum
kraftaskáldum séu yfirleitt eftir þau, og að þeim, sem vill trúa
öðru, beri frekar skylda til þess að færa fram gild rök fyrir því.
20) Lbs. 852, 4to og Lbs. 1294, 8vo.