Skírnir - 01.01.1961, Síða 101
ERIK S0NDERHOLM:
SAMTÍNINGUR UM FÓSTBRÆÐRASÖGU
í formála Islenzkra fornrita VI. bindi (1943, bls. LXX og
áfram) hefur Sigurði prófessor Nordal tekizt að leiða í ljós
sterk rök fyrir því, að Fóstbræðrasaga sé ein hin elzta íslend-
ingasagna, sem varðveitzt hefur. Höfundi tekst enn fremur að
sanna, að sagan geti ekki verið yngri en frá því um 1200, og
mun reynast torvelt, að ekki sé sagt ókleift með öllu, að hagga
þeim mikilvægu röksemdum, sem hníga að þessari tímasetn-
ingu. Á þessum grundvelli svo og þeim rannsóknum, sem Sig-
urður Nordal hefur gert á aldri og skyldleika þeirra gerða sög-
unnar, sem enn eru til, skýrir hann sérkenni Fóstbræðrasögu,
sem kunn eru, og telur þau bera vott um gelgjuskeið og æsku-
brek sagnlistarinnar. Hann lætur fyrir róða fyrri kenningar
um, að hinum alkunnu útúrdúrum sé skotið inn í söguna af
afritara á hnignunartímum sagnritunarinnar. Þessi skoðun á
stoð sína í samanburði á öðrum ritum jafngömlum. Sá saman-
burður hefur leitt höfundinn að þeirri niðurstöðu, að um alda-
mótin 1200 hafi sagnastíllinn ekki verið vaxinn til þess þroska
og öryggis, sem þegar verður vart í ögn yngri sögum.
Það veldur því vart nokkurri furðu, þótt í ljós komi, að enn
megi rekja frekari sérkenni í stíl og samsetningu sögimnar, sem
ber viðvaningsbrag söguhöfundarins vitni og leiðir auk þess
skýrt í ljós, að hann hefur stórmjög skort á skapandi hug-
myndaflug (skáldgáfu).
Ég fæ ekki séð, að hægt sé að efast um, að Þormóðr hafi ort
Þorgeirsdrápu (sjá ísl. fornrit VI, bls. LVIII og áfram), og skipt-
ir það mestu máli í þessu sambandi. Verður því að telja, að
hún hafi verið meginheimild söguritarans um afrek hetjanna
beggja.1) En engu þýðingarminni er sú staðreynd, að vísur