Skírnir - 01.01.1961, Side 134
132
Einar Bjarnason
Skímir
sem auðsjáanlega er enn frumlegra, í nr. 257 og 258 folio, og
lítt hefur verið kunnugt hér á landi. Þetta nýnefnda niðjatala-
safn er að minum dómi hið merkilegasta af niðjatalaheimild-
um þeim, sem ég hef hér minnzt á. Það þarfnast ýtarlegrar
athugunar, og ætti sú athugun að verða fyrsta verkefni rann-
sóknar á niðjatala-heimildum.
Niðjatölum þessum þarf að safna saman, það þarf að gera
ýtarlega lýsingu á þeim og samanburð, rannsaka aldur þeirra
og höfunda og heimildargildi þeirra á allan hátt. Þetta er gríðar-
lega mikið verk, en fyrst að því verki loknu má á þeim byggja.
Heimildir þær, sem eldri eru en niðjatöl þessi, eru aðallega
fornbréfin.
Hið prentaða fornbréfasafn hafa menn ætlað, að væri full-
traustar heimildir, en jafnvel því er nú talið að ýmsu ábóta-
vant. Þó eru gallarnir væntanlega svo fáir og svo smávægilegir
flestir, að hætta má á að leggja það til grundvallar í ætta-
rannsóknum.
Því er það, að ég í grein þessari geri að umtalsefni nokkur
fornbréf frá byrjun 15. aldar og reyni að leiða af efni þeirra
og samanburði heimilda ættfærslur, sem ekki voru áður kunn-
ar nútímamönnum. Sumt af þessu fólki er nú að mestu gleymt,
en það var á sínum tíma í helztu manna röð. Annað er kunn-
ugra þeim, sem þekkja til Islandssögu á nefndri öld. Ég hef
hugsað mér að sýna með grein minni, hvað hægt er að lesa úr
fornbréfunum með réttum rökum, stundum svo að fullyrða má
um niðurstöður, en stundum svo, að líkur eru miklar fyrir þeim.
Erfðalöggjöf Jónsbókar er svo ýtarleg og fastmótuð, að með
réttri notkun hennar má beinlínis sanna ættfærslur, svo sem
hér á eftir verður sýnt. Erfðatal Jónsbókar, með réttarbótum
þeim, sem á þvi voru gerðar, hélzt óhaggað fram á 18. öld, og
má telja alveg öruggt, að alla þá tíð hafi því verið vandlega
hlýtt, með þvi að nógir voru til að kæra brot á löggjöfinni, og
ekki stóð á slíku, ef um efnafólk var að ræða og hlutur ein-
hvers var fyrir borð borinn. Um þetta bera vitni hin mörgu
málaferli í erfðamálum á öllum þeim öldum, sem erfðalöggjöf
Jónsbókar gilti.
Hefst nú athugunin: