Skírnir - 01.01.1961, Blaðsíða 150
148
Einar Bjarnason
Skírnir
ingsmægðum og frændsemi með páfabréfi og ströngum fyrir-
mælum páfa, varð undantekningin ekki að fordæmi, og héld-
ust kirkjulagaákvæðin áfram, eftir því sem ég bezt veit. Engar
minnstu likur eru til þess, að á 14. öld, eða fyrr á 15. öld hafi
nokkru sinni verið slakað á þessum ákvæðum, og virðist því
mega telja þau traustan grundvöll undir ættrakningu, þannig
að á þeim tímum hafi hjón ekki verið skyld eða mægð að
fjórða manni eða nær.
Um börn klerka gegndi öðru máli en um börn leikmanna.
Klerkar voru margir af auðugum ættmn, og hefðu börn þeirra
sokkið í fátækt, ef ekki hefðu verið höfð ráð til þess, að þau
erfði foreldra sína. Þau munu oft eða oftast hafa verið ættleidd,
og mörg eru kunn dæmi þess, að nánustu erfingjar heimiluðu
ættleiðingu á þeim. Ef engin slík ráð hefðu verið notuð, hefði
fátt gengið í klerkahóp af auðugum ættmn, og snauðir menn
hefðu komizt til metorða og embætta kirkjunnar, en slíkt mun
ekki hafa samrýmzt hugsunarhætti ráðamanna þeirra tíma.
Hin ströngu kirkjulagaákvæði hafa verið búin að koma því
til leiðar, að margt karla og kvenna bjó saman og átti börn
saman án þess að ganga í hjónaband. Frillulífið var litið opn-
um augum á 15. öld. Nægir í því efni að benda á dæmin um
Loft Guttormsson og Kristínu Oddsdóttur, Jón Þorláksson og
Solveigu Björnsdóttur og Þorleif Björnsson og Ingveldi Helga-
dóttur. Það kann þvi að hafa verið alveg eðlilegt, að þau hafi
tekið saman Böðvar Finnsson og Ragna Rafnsdóttir, eftir lát
Brands Halldórssonar, sem kann að hafa orðið skömmu eftir,
að hans er síðast getið á lífi, árið 1441. Ragna hefur þá líklega
ekki verið eldri en rétt rúmlega fertug og hefur því aldurs vegna
getað átt börn með Böðvari. Böðvar kann að hafa verið svo
skyldur Rögnu eða Brandi, að hjúskapur hafi verið útilokaður,
og því þarf ekkert að vera athugavert við það, að eftir nokkurra
ára sambúð við Rögnu hafi Böðvar kvænzt. Sambúð Rögnu og
Böðvars gæti verið skýring á hinum greiða aðgangi, sem Böðvar
hefur einhvern tíma haft að Barðseignum. Það er eftirtekt-
arvert, að Böðvar er fyrst sóttur til að svara aftur því, sem
hann hafði haft af Barðseignum, árið 1483, og er það gert af
Rafni Halldórssyni, sonarsyni Rögnu Rafnsdóttur. Þá hafði