Skírnir - 01.01.1961, Page 155
Skírnir
Kaj Munk
153
barn, sem snemma kynntist dauðanum. Fimm ára gamall
hafði hann misst báða foreldra sína. Hann fæddist árið 1898.
Faðir hans var iðnaðarmaður í bænum Maribo á Lálandi,
og ólst Kaj upp sem múgabarn í sveit. Fósturfaðir hans var
glaðlyndur smábóndi, fóstra hans bóndadóttir, ströng og heit-
trúuð. Frá henni og frá sveitaþorpunum, þar sem guð er
enn þá til, eins og Kaj Munk segir sjálfur í endurminningum
sínum, er hinn einarði, lúterski kristindómur hans runninn.
Skilningsríkir kennarar styrktu hann á námsbrautinni, meðal
þeirra hinn róttæki prestur og bókmenntagagnrýnandi Oscar
Geismar í Kaupmannahöfn. Hann vakti hjá honum aðdáun-
ina á Oehlenschlager og Shakespeare.
Kaj Munk varð stúdent 1917 og tók guðfræðipróf 1924. Á
námsárunum mótaðist lífsskoðun hans, og þá var lagður
grundvöllur að efni skáldverkanna, strangri baráttu milli trú-
ar og efasemda. Barnatrúin rakst á reynslu hans, óskiljan-
legur dauði hans nánustu og blóðbað heimsstyrjaldarinnar,
hin sterka föðurlandskennd og konungshollusta úr skóla
bernskuáranna rakst á hrun lýðræðis og konungsætta eftir
stríðið og vakti hjá honum vonina um þann sterka, einræðis-
herrann. 1 huga hans léku andstæðurnar, leikrænn sefi, þar
sem öfgarnar vógust á og rákust hver á aðra. „Menn vita
aldrei, hvar ég stend, og ég á því láni að fagna að vita aldrei
sjálfur, hvar ég stend. Það er eiginleiki, sem ég er svolítið
hreykinn af“, skrifaði hann seinna.
Úr innri baráttu æskuáranna skapaðist trú hans á þján-
inguna sem verkfæri guðs og hrifning hans á viljasterkum
athafnamönnum, á hinu styrka, þrjózka og þvermóðskulega
eðlisfari, sem hann bjó sjálfur yfir. í tveimur æskuleikritum
fæst hann við vandamál sín. Hið fyrra er Pílatus, samið í
anda Oehlenschlagers árið 1917 í stúdentsprófinu. Þar dreg-
ur hann upp mynd af efasemdum og tvískinnungi hins verð-
andi stúdents milli hins harða og hefnigjarna Jehova Gamla
testamentisins og hins milda Krists Nýja testamentisins. Hjá
Pilatusi finnur hann viljann til gæzku, sem berst fyrir að fá
Jesúm sýknaðan, en vilji hans verður skotspónn annarra afla.
Hann verður samsærinu að bráð. Hitt leikritið, Operationen