Skírnir - 01.01.1961, Page 210
208
Jónas Pálsson og Hjálmar Ölafsson
Skirnir
óreglu milli árganga með því að taka alltaf meðaltal 3 ára og
byggja útreikningana á þeirri útkomu.
Með þessum fyrirvara teljum við rétt að birta tölurnar,
enda ættu þær að gefa sæmilega vísbendingu um meginatriði
málsins, þ. e. hve margir úr árgangi á þessu 16 ára tímabili
þreyta landspróf árlega og hve margir ná framhaldseinkunn
6.00. Taflan skýrir sig að mestu sjálf. Það er í rauninni
merkilegt, hve hlutfallstala landsprófsmanna af árgöngum er
jöfn frá 1950 og einnig hlutfallstala þeirra, sem framhalds-
einkunn ná.
V.
Hlutverk landsprófs virðist einkum miðast við þrjú atriði:
1 fyrsta lagi að tryggja ákveðna og samræmda lágmarks-
þekkingu í allmörgum námsgreinum, áður en nemendur hefja
eiginlegt langskólanám.
1 öðru lagi mun ætlunin að tryggja eftir mætti úrval hinna
hæfustu með tilliti til ákveðinna eiginleika, sem nauðsynlegir
eru taldir þeim, er með sæmilegum árangri vilja stunda nám
í menntaskóla og háskóla eða öðrum framhaldsskólum. Er hér
fyrst og fremst átt við það, sem almennt er nefnt greind.
1 þriðja lagi mun vaka fyrir skólayfirvöldum að veita öll-
um nemendum og aðstandendum þeirra nokkra tryggingu
fyrir mati óvilhallra manna á prófverkefnum og að verkefni
séu hin sömu fyrir alla. Af þessu leiðir líka bætt aðstaða ung-
linga, hvar sem er á landinu, til að búa sig þar undir fram-
haldsnám. Er þetta síðast nefnda vissulega mikilvægt, svo sem
þeir vita gleggst, sem áður urðu að sæta inntökuprófum við
menntaskólana, þótt þeir hefðu áður tekið gagnfræðaskóla-
próf úti á landsbyggðinni.
öll eru þessi atriði mikilvæg og skapa landsprófi fyllsta til-
verurétt. Hinu er svo ekki að neita, að prófskerfið felur í sér
vissa ókosti, suma óhjákvæmilega afleiðingu skipulagsins, en
úr öðrum mætti stórlega draga, að við ætlum, ef stöðug ár-
vekni væri sýnd við að endurbæta og breyta prófinu til sam-
ræmis við breyttar aðstæður og aukna reynslu.