Skírnir - 01.01.1968, Blaðsíða 9
ÓLAFURJÓNSSON
Ártíð Jóns Thoroddsen
Hundrað ár eru alllangur tími. í ár þegar 100 ár eru liðin frá
andláti Jóns Thoroddsen, 8da marz 1868, og 150 ár frá fæðingu
hans, 5ta október 1818, er staða hans löngu ráðin í bókmenntunum,
bæði formlegri bókmenntasögu og vitund lesenda, upphafsmanns
skáldsagnagerðar í nútíðarskilningi á íslenzku. Upphaf hennar má
dagsetja á útgáfuári Pilts og stúlku, 1850. Sú dagsetning breytist
ekki þó menn vilji gera sem mest úr fyrirmynd Jónasar Hallgríms-
sonar fyrir Jón og finna fyrsta vísi til skáldsagna í Grasaferð og
Gamanbréfi hans og áframhald Gamanbréfsins í Helj arslóðarorrustu
Benedikts Gröndal sem orðið hafi ekki miður áhrifaríkt seinni mönn-
um en verk Jóns Thoroddsen. En svo mikið er víst að eins og hinn
epíski og raunsæilegi frásagnarháttur, sem mest hefur farið fyrir í
íslenzkri skáldsagnagerð allt fram á þennan dag, hefst með Pilti
og stúlku og Manni og konu, eins hefst með Gamanbréfinu og Helj-
arslóðarorrustu búrleskur eða fáránlegur sögustíll sem jafnan hef-
ur gætt álengdar við hinn stillilegri og settari meginfarveg skáld-
sagna - til að mynda í ritum Þórbergs Þórðarsonar, Halldórs Lax-
ness öðrum þræði, og nú síðast í ritum Guðbergs Bergssonar. Ein-
kennilegra er hitt að leikritun kemur fyrr til á íslenzku en skáld-
sagnagerð. Fyrstu leikrit sem gildi hafa enn í dag, Hrólfur og Narfi
Sigurðar Péturssonar, eru samin fullri hálfri öld fyrr en Piltur og
stúlka, og með þeim og sögum Jóns má sjá skyldleika, bæði í mann-
lýsingum og viðhorfi höfundanna við efni sínu. Leikritun fylgdi
skáldsagnagerð raunar furðufast eftir langt fram eftir, þó síðan hafi
skipt sköpum með þessum bókmenntagreinum á íslenzku. Eftir leiki
Sigurðar Péturssonar komu Útilegumenn Matthíasar Jochumssonar
og Nýársnótt Indriða Einarssonar, öll þessi leikrit tilkomin af þörf
skólapilta fyrir skemmtunarleiki. Þeirri þörf er upphaf íslenzkrar