Skírnir - 01.01.1968, Blaðsíða 72
70
HERMANN PÁLSSON
SKÍRNIR
góðmenni, en Hrafnkatli er sumt illa gefið. Allt um það er þessum
hetjum það sameiginlegt, að þær verða að þola miklar raunir. Báðir
tapa þeir eignum sínum, og báðir eru látnir sæta líkamlegum þján-
ingum: annar sleginn líkþrá og hinn pyndaður og hrakinn með
herfilegu bragði. Hrafnkell er eins konar óguðleg útgáfa af Job.
Báðir lifa þeir af eldraunina og hljóta umbun að nestlokum í nýjum
auði og virðingu. Þó bregzt Hrafnkell að því leyti, að hann tapar
trúnni á goð sín.
Einsætt er, að Jobsbók hefur haft áhrif á Hrafnkels sögu. Hins
vegar verður ekkert um það fullyrt, að hve miklu leyti höfundur
sækir þetta efni í biblíuna af ásettu ráði. En öll er sagan svo gegn-
sýrð af kristnum hugmyndum og þekkingu á uppbyggilegum ritum,
að bergmál frá Jobsbók munu sízt af öllu koma mönnum á óvart. Og
vissulega koma orð Hrafnkels, að hégómi sé að trúa á goðin, einn-
ig heim við orð Jobsbókar, sem Ebhú leggur Job í munn: „Maður-
inn hefir ekkert gagn af því að vera í vinfengi við Guð“. Hrafnkell
hefur bókstaflega tapað viðskiptum sínum við Frey; vinfengi hans
við goðin hefur kostað hann goðorð, staðfestu og aðrar eignir, auk
þeirra líkamlegu þjáninga, sem hann varð að þola. Þetta efnislega
viðhorf til goðanna er eitthvert merkasta atriðið í öllum átrúnaði
Hrafnkels, og ætti mönnum nú að fara að verða ljóst, að hér er
ekki um fornan arf frá Freysdýrkun að ræða, heldur er þetta sótt
til biblíunnar.
Fyrr í Hrafnkels sögu er mikil áherzla á það lögð, að Hrafnkell
hafi elskað Frey og haft mikla elsku á Freyfaxa. Nú hefur Hrafn-
kell að lokum komizt að því, að það sé hégómi að trúa á goðin.
Má vel vera, að hér kenni einnig áhrifa frá Davíðssálmi einum:
„Hversu lengi ætlið þér að elska hégóma og sækjast eftir lygi?“ Trú-
arhvarf Hrafnkels verður einber vitleysa, þegar reynt er að skýra
það út frá heiðnum forsendum, en með biblíuna í huga er næsta
auðvelt að átta sig á boðskapnum. Það er einmitt í samræmi við
kristnar siðaskoðanir, að það sem maðurinn elskar hefur áhrif á
hann sjálfan. Þegar Hrafnkell hættir að elska hégómann, þ. e. Frey
og Freyfaxa, verður hann betri maður en áður, og ein afleiðingin
verður óhj ákvæmilega sú, að hann verður vinsælli maður. Mönn-
um hlýtur að falla betur við mann eftir að hann hefur hætt að elska
hégómann.