Skírnir - 01.01.1968, Blaðsíða 187
SKÍRNIR
RITDOMAR
185
Guðrúnu frá Lundi og Ingibjörgu Sigurðardóttur, og vinsældir slíkra höfunda
meðal lesenda, „einstætt í evrópumenningu“. Hér held ég sé helzti fast að
orði kveðið. Að vísu veit ég ekki með vissu um félagslegan uppruna kvenna
á borð við Thit Jensen í Danmörku og Sigge Stark í Svíþjóð, en vinsældir
þeirra voru og eru engu minni en stallsystra þeirra hérlendis, og bókmennta-
gildi verka þeirra mun vera nokkurnveginn jafnmikið.
Það var raunar vitað fyrr, en kemur fram með einkar skýrum hætti á nokkr-
um stöðum í þessari bók, að Halldór Laxness er hörundsár rithöfundur og
minnugur á misjafna dóma um einstök verk hans, samanber þessi orð: „ . . .
snildarandar þjóðarinnar, meira að segja hin þriðja snildarandakynslóð í
minni ævi, eru enn jafn óðfúsir og nokkru sinni að úthúða þessu skáldmenni
í blöðunum og lumbra á því í vígaham einsog böldnum krakka hvenær sem
það dirfist að senda frá sér einn bæklíng enn. Aðrir umbera mig af stóru
veglyndi sínu“.
Þetta útsmogna og hvimleiða lítillæti, sem er í reyndinni íslenzkur gorgeir
í sínu alkunna dulargervi, klæðir nóbelsskáldið ákaflega illa, og ólund hans
er þeim mun furðulegri sem engum íslenzkum höfundi á þessari öld hefur
verið hampað til jafns við Halldór Laxness, og ekki ófyrirsynju, þó einhverj-
ir sérvitringar, nú löngu gleymdir, hafi lagt hann í einelti fyrr á árum. Sá
skilningur sem mér virðist liggja í orðum hans hér að framan og öðrum um-
mælum svipuðum, að nóbelsverðlaunin hafi lyft honum yfir alla gagnrýni,
finnst mér barnalegur og langt fyrir neðan virðingu skálds af hans stærð.
Og langrækinn er hann, ef dæma má af þeirri meðferð sem Guðmundur I.
Guðmundsson fyrrum utanríkisráðherra fær hjá honum, og man ég ekki til að
þekktur einstaklingur hafi í bókmenntum okkar fengið öllu háðulegri út-
reið - og það sem verst er: manngarmurinn verðskuldar fullkomlega dóminn:
„Þegar yfirvaldið var búið að tapa málum þessum öllum til viðbótar við
mart verra, þá var ekki hægt að bjarga manninum öðruvísi en sparka honum
uppávið, stjórnmálamegin, eftir gamalkunnri reglu. Einhverneginn tókst hon-
um að safna glóðum elds að höfði sér í hinu nýa embætti uns þar kom að
þessi óhemju hversdagslega persóna var orðinn marghataðastur maður á land-
inu. Þegar fór að flóa að honum á Islandi tók hann það ráð að skipa sjálfan
sig sendiherra í London - íslenskt kompliment við The Court of St. James“.
Þeir kaflar í íslendíngaspjalli sem hæfa hvað helzt í mark eru að mínu viti
kaflarnir um drykkjuskap og flatneskju á íslandi. Um fyrra efnið segir höf-
undur m. a.: „Áfeingisnotkun á íslandi er reyndar samkvæmt alþjóðlegum
vísitölum einhver hin lægsta í Evrópu miðað við almenna neyslu. Hinsvegar
bera íslendíngar áfeingi allra manna verst, þá skortir „þrek“, eða kanski
aðeins almenna mannasiði til áfeingisneyslu á við verulegar drykkjuþjóðir, og
verða miður sín til líkams og sálar af tiltölulega litlum skamti þessa væga
eiturs. I Reykjavík sjást til dæmis fleiri menn drykkjubrjálaðir á almanna-
færi en í flestum vínborgum álfunnar, en í slíkum borgum er hægt að eiga
heima ævilángt án þess að sjá nokkru sinni drukkinn mann“.