Skírnir - 01.01.1968, Blaðsíða 13
SKÍRNXR
ÁRTÍÐ JÓNS THORODDSEN
11
En eiginleg epísk verk verða varla samin í þeirri trú að heiminum
verði „breytt“ hvort heldur er til ills eða góðs. Þegar hún er aflögð
kann að vera mál til komið að semja epísk verk að nýju.
Á ártíð Jóns Thoroddsen eru verk hans enn í góðu gildi með les-
endum hans, eða svo er að ætla af því að þau eru stöðugt gefin
út að nýju, tekin til meðferðar á leiksviði við tryggar vinsældir,
og verða án efa viðfangsefni nútímalegri fjölmiðlunar, útvarps og
kvikmynda, áður en langt um líður. Vinsældir sínar eiga sögurnar
að sjálfsögðu að þakka sínum skopgerðu mannlýsingum sem allir
þekkja, vanir við þær frá barnæsku, nákomið fólk lesendum eins
og einungis verður í góðum bókum. Sú áhætta kann hins vegar að
stafa af hinum traustu og varanlegu vinsældum að menn loki sög-
unum fyrir sér, gangi út frá þeim sem gefnum hlut, ástundi ekki að
lesa þær upp að nýju. Leikgerðir eftir sögum Jóns Thoroddsen eru
til að mynda skáldskaparlítil, andlaus verk til móts við sögurnar
sjálfar, þó þær veiti góðum leikurum þakksamleg viðfangsefni, af
því að þar er staðnæmzt við hin ytri atvik og mannlýsingar sög-
unnar. Á sviðinu skortir návist höfundarins sjálfs, vantar epíska
fjarvídd sagnanna sem jafnan gætir meðan maður les. Það er þrátt
fyrir allt ekki fyndni Jóns Thoroddsen, sem er fyndinn höfundur,
ekki þjóðlífs- eða mannlýsingar hans, þó hann sé fjölfróður um
hvort tveggja mannlíf og þjóðhætti sinnar tíðar, sem gæða sögur
hans lífi og anda, heldur hin skáldlega skyggni, sögumannsgáfa
sem kveikir allt þetta saman ásamt mörgu öðru í eina lífsmynd.
Mynd Jóns Thoroddsen af samtíð sinni er okkar eigin, arfur okkar
og þáttur menningarsögunnar eins og verk annarra höfuðskálda
19du aldar sem mestu hafa ráðið um íslenzka sjálfsskoðun síðan.
Sjálfra okkar vegna og okkar eigin menningar þarf á að halda stöð-
ugri ástundun þessara skálda og skáldskapar þeirra.