Skírnir - 01.01.1968, Blaðsíða 171
SKIRNIR
RITDÓMAR
169
kvarterjarðfræði. Er þetta óefað bezta heildaryfirlitið, sem völ er nú á á
nokkru máli um jarðfræði Islands.
Hinn mikli fjöldi ljósmynda og teikninga í bókinni stóreykur gildi hennar.
Hefur valið yfirleitt tekizt vel, en flestar myndirnar eru sóttar í ritgerðir
þær um jarðfræði Islands, sem komið hafa út á síðari árum. Hér og þar hefði
þó mátt fá betri myndir, ef ekki hefði, kostnaðar vegna, verið freistazt til að
nota sem mest þær myndir, sem klisjur voru til af. T. d. er engin viðunanleg
hveramynd í bókinni. En það er texti bókarinnar, sem mestu ræður um gildi
hennar. Alls staðar skín það í gegn, að höfundur er jarðfræðingur af lífi og
sál, og er bókin því einstaklega lifandi og vekjandi.
Að sjálfsögðu munu ekki allir jarðfræðingar á eitt sáttir um allt það sem
í bókinni er staðhæft, enda bæri það ekki vitni mikilli grósku í þessum fræð-
um ef svo væri. Höfundur tekur fram í eftirmála, að bókin eigi að vera bæði
handbók fyrir fræðimenn, fræðslurit fyrir almenning, ferðahandbók og kennslu-
bók. Er erfitt svo mörgum herrum að þjóna og nýrrar, hentugrar kennslubókar
í jarðfræði handa menntaskólunum mun enn sem fyrr þörf, þrátt fyrir útkomu
þessarar bókar. Þó tel ég bókina vel henta væntanlegum náttúrufræðideildum
þessara skóla. En æskilegt væri að sameina í eina kennslubók handa mennta-
skólunum veðurfræði, haffræði og jarðfræði, sem tryggði hæfileg hlutföll milli
þessara greina, en jarðfræðin hefur á síðari árum gert sig helzti breiða á
kostnað veðurfræði og haffræði, a. m. k. í menntaskólanum við Lækjargötu.
Það er sannfæring mín, að Jarðfræði Þorleifs Einarssonar sé öndvegisbók.
Sigurður Þórarinsson
LÝÐUR BJÖRNSSON:
SKÚLI MAGNÚSSON LANDFÓGETI
ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík 1966
í þessari bók hefur Lýður Björnsson tekið sér það fyrir hendur að skrifa yf-
irlit um ævi Skúla Magnússonar landfógeta fyrir almenning.
Sagnfræðingur getur brugðizt við þessu verkefni á tvennan hátt miðað við
á hvaða stigi rannsóknir á efninu standa. Ef efnið er mikið og vel rannsakað,
er auðsætt, að hann byggir yfirlit sitt á þeim rannsóknum, sem fyrir hendi
eru. Sé hins vegar efnið lítið eða illa rannsakað (eða jafnvel ekkert), verður
höfundur að gera rannsóknina sjálfur.
Að vísu er þriðji möguleikinn til, að tína saman upplýsingar, skeyta þær
saman í læsilega heild án þess að gera nokkra raunverulega rannsókn og semja
bók á slíkri undirstöðu. En slíkt er ekki sagnfræði, og sá maður, sem slíkt
gerir, ekki sagnfræðingur, svo framarlega sem sagnfræði er skilin sem vís-