Skírnir - 01.01.1968, Blaðsíða 107
SKÍRNIR NORRÆNUFRÆÐINGUR HLUSTAR OG SPYR 105
ingu skortir mig bæði menntun og getu, og mun ég því ekki freista
að ræða þann hluta nánara.
Sá hefur jafnan verið háttur Jóns Oskars að standa báðum fót-
um í samtíð sinni. Viðfangsefni hans hafa jafnan verið mannlífið
sjálft, og ljóð hans hafa miklu fremur verið í ætt við skynjun og
eftirgrennslun á því heldur en vandlætingarhróp og spámennsku.
Ekki þó þannig, að hann hafi verið hlutlaus áhorfandi með róslitað
gler fyrir augunum, hann hefur í ljóðum sínum tekið ákveðna af-
stöðu gegn erlendri hersetu á íslandi og hvers kyns yfirgangi. Eitt
rismesta kvæði hans fyrr og síðar er Ljós tendruð og slökkt í Guate-
mala, þar sem hann yrkir af heitum og sönnum tilfinningum um
yfirgang ameríska auðhringsins United Fruit Company við arð-
rænda öreiga þessa ríka lands. Auk þessara þjóðernislegu og mann-
legu tilfinninga, sem ég hef hér nefnt, hefur jafnan gætt í kvæð-
um Jóns Óskars ríkrar tilfinningar fyrir hvers konar fegurð; fögru
landi, fagurri tónlist. Að hætti fjölmargra nútímaskálda leitar tíð-
um á hann að reyna að finna sjálfum sér stað í öllum þeim mikla
ys og þys nútíma þjóðfélags, sú tilraun hans er löngum blandin
einmanakennd og söknuði.
Bókin Söngur í nœsta húsi, hefst á litlu, en mjög fáguðu kvæði,
sem höfundur nefnir Dansljóð. Heiti ljóðsins er vel til fallið, kvæðið
minnir á einstök, forn danskvæðastef, en er jafnframt nokkurs kon-
ar ballett um söknuð og einmanakennd, ótta og ef til vill einhverja
von, sem þó er viðkvæm og auðhrakin brott:
í undrandi hendi mér
sefur litfiðrildi vonarinnar.
Snertu það ekki.
Handbragð skáldsins á þessu kvæði er afar fínlegt og ljóðrænt,
og í Söng í næsta húsi eru nokkur smákvæði, þar sem slegið er á
sömu strengi, svo að hrein unun er að; kvæði eins og Hverfult líf,
Dísa í undralandi, Líf, Vísa ungrar stúlku, Vísa og Náttúruundrin.
Síðasttalda kvæðið er lofgerð um einfaldleik og óspillt fegurðar-
skyn, hrifning af landi, hafi, skepnum:
Það var unaðslegt veður á annan páskadag.
Við fórum til Stokkseyrar að gleðjast yfir náttúruundrunum.