Skírnir - 01.01.1968, Blaðsíða 51
SKÍRNIR ER SNORRI HÖFUNDUR EGILS SÖGU? 49
vel mikla ok reiddi annarri hendi sem harðast ok laust hamr-
inum á hausinn ok vildi brjóta, en þar sem á kom, hvítnaði
hann, en ekki dalaði né sprakk, ok má af slíku marka, at hauss
sá mundi ekki auðskaddr fyrir hgggum smámennis, meðan
svgrðr ok hold fylgði.1
Ætli þetta sé ekki elzta bókmenntarannsókn sem sögur fara af á
landi hér? Að minnsta kosti er ekki vitað um eldri rannsóknir á
sannfræði sagna af Agli Skallagrímssyni. Það er ekki laust við að
nýjustu aðfarir fræðimanna við rannsóknir á Egils sögu minni lítið
eitt á rannsóknir Skafta prests. Vitur maður, dr. Peter Hallberg í
Gautaborg, hefur mulið söguna niður í 62079 mola, sem hann síðan
gaumgæfir í þeirri von að takast megi að fá sannar fregnir af höf-
undi sögunnar. En þessar harkalegu aðgerðir hafa engin sýnileg á-
hrif haft á Eglu; hún dalar hvorki né springur, og má af slíku marka,
hvílíkur sá haus hafi verið, er hana setti saman í öndverðu. I trausti
þess að sá haus muni enn ekki auðskaddur fyrir höggum smámennis,
skal ég nú freista þess að fara nokkrum orðum um svör við spurn-
ingunni: Er Snorri höjundur Egils sögu?
í fornum heimildum er enginn stafkrókur fyrir því að Snorri sé
höfundur Egils sögu; það er tilgáta seinni tíma manna. Svo vill til,
að á þessu ári er liðin nákvæmlega hálf önnur öld síðan þeirri hug-
mynd var fyrst haldið á loft, svo að kunnugt sé, að Snorri Sturlu-
son væri höfundur Egils sögu. Það var enginn annar en danska
skáldið Grundtvig sem sló þessu fram í formála að þýðingu sinni á
Heimskringlu, - fyrsta bindinu sem út kom árið 1818. Hann segir:
Giætte kunde man end videre med Rimelighed paa, at Snorro
er manden for den mellem Sagaerne udmærkede Eigla, eller
Eigil Skallagrimssöns Liv og Levnet, ... 2
Hugmyndin virðist þó einkum breiðast út, eftir að Guðbrandur
Vigfússon víkur að henni í formála Sturlunguútgáfu sinnar, sextíu
árum seinna. Hann segir - í lauslegri þýðingu:
Stíllinn er djarflegur og þróttmikill, hæfir efninu mætavel og
líkist mjög stíl Snorra, sem vel gæti hafa fengið áhuga á
söguhetjunni; hann hafði sjálfur dvalizt á bæ hans, Borg, og
fór með völd í héraðinu sem pólitískur arftaki Egils.3
Fyrsti maður sem gerði alvarlega tilraun til að rökstyðja hugmynd
þeirra Grundtvigs og Guðbrands, var Björn Magnússon Olsen. Hann
4