Skírnir - 01.01.1977, Side 13
SKÍRNIR GRÍSKAR FORNMENNTIR Á ÍSLANDI 11
grundvöll sem skólaspeki miðalda veitti sem og það borgarlíf
sem slíkar menntir þrífast einna bezt í. Frá kaþólskum tíma
eigum við fátt eða ekkert sem ber vitni um fornmenntaanda eða
sé fallið til að hrekja staðhæfingu sem Oddi Einarssyni er eign-
uð: „Engir sinntu bóknámi, hvorki latínufræðum né öðrum
tungum", enda gumar síðasti kaþólski biskupinn af því að kunna
ekki stakt orð í latínu. Þótt sú yfirlýsing kunni að vera orðum
aukin lýsir hún vissulega aldarandanum á fyrri hluta sextándu
aldar. Grundvöllur húmanisma kemur því fyrst með siðaskipt-
unum, þegar konungsvaldið danska beitir sér fyrir eflingu lær-
dóms og endurnýjun skólahalds, bæði með stofnun tveggja lat-
ínuskóla á íslandi árið 1552 sem og með því að veita íslending-
um tækifæri til að nema við Hafnarháskóla. En þann forn-
menntaanda sem siðaskiptahreyfingin í Danmörku bar með sér
má að miklu leyti rekja til Melancthons, sem mótaði skólalíf
í danska ríkinu, og þessi endurnýjun varð grundvöllur undir
lærdómi manna eins og Arngríms Jónssonar og Brynjólfs Sveins-
sonar. Um hinn síðarnefnda var það haft eftir grískum manni,
Nikefórosi nokkrum frá Þessalóníku er Brynjólfur ræddi eitt
sinn við yfir borðum suður í Kaupmannahöfn, að Brynjólfur
væri manna bezt mæltur á gríska tungu í Danaveldi.
Sé litið á starfsemi og verk þessara manna sést glöggt að húm-
anisminn tekur á sig talsvert aðra mynd hér en hann gerir sunn-
ar í álfunni. Því fremur en að reyna að endurvekja hið forna
Hellas og menntir þess í eigin umhverfi, virðist áhuginn beinast
að því að kanna sögu, menningu og náttúru ættlandsins og að
kynna hana fyrir umheiminum. Þessi áhugi liggur að baki lat-
ínuritum Arngríms lærða, svo sem Brevis commentarius og Cry-
mogæa, en einnig öðrum ritum eins og De mirabilibus Islandiae
eftir Gísla Oddsson eða De geniis et spectris eftir nafna hans Vig-
fússon sem og handritasöfnun og fræðimennsku Brynjólfs Sveins-
sonar og annarra. En þótt rit Arngríms, Crymogæa, fjalli um
ísland, er það byggt á almennum heimspekigrundvelli hins
evrópska húmanisma og styðst m. a. við kenningar franska
stjórnspekingsins Bodínusar eða Bodins um þróun og hnignun
stjórnarhátta eftir vissum lögmálum.3 Þessar kenningar, sem
komu Arngrími að haldi við að skilgreina hnignun hins forna