Skírnir - 01.01.1977, Page 26
24
HELGA KRESS
SKÍRNIR
verkum fjögurra karlrithöfunda. Með því að sundurgreina sam-
faralýsingar hjá D. H. Lawrence, Norman Mailer og Henry
Miller, og bera síðan saman við kynvillulýsingar Jean Genet,
sýnir hún fram á hvernig dulið kvenhatur og tilhneiging til
valdbeitingar liggur til grundvallar kynfrelsisboðun þessara
þriggja höfunda.
Um langan aldur hafa bókmenntir svo til eingöngu verið
skrifaðar af karlmönnum fyrir karlmenn. Sú kvenmynd sem
þær miðla er kynbundin og mótuð af karlveldi og kvenkúgun
um aldaraðir. í bók sinni Littereere kénsroller (1973) setur Pil
Dahlerup fram í nokkrum liðum það sem hún kallar „patri-
arkale fiktionsm0nstre“, þ.e. karlveldismunstur í frásögn, eða
e.k. óskrifaðar reglur í bókmenntum karlveldisþjóðfélagsins.
1. Aðalpersónan er karlmaður.
2. Meirihluti persóna eru karlmenn.
3. Konum er lýst sem kynverum og í afstöðu við karlmenn.
4. Viðfangsefni verksins og vandamál snertir karlmenn eina.
5. Umræða verksins og höfuðsjónarmið eru lögð í munn
karlmanna.
6. í persónulýsingum er lögð áhersla á andlega eiginleika
karlmanna en holdleg einkenni kvenna.
7. Mál og stíll styðja hefðbundna kynskiptingu.
Vitaskuld eru til undantekningar frá þessum reglum í ein-
staka verkum, en ef litið er á fleiri saman eða bókmenntasöguna
í heild, eru þær í fullu gildi. Aðalpersónur í langflestum verkum
eru karlmenn. Þá sjaldan konur eru það, er ástin oftast höfuð-
minni í verkinu. Sem dæmi um þetta bendir Pil Dahlerup á
Madame Bovary eftir Flaubert. En hún skilur ekki á milli sögu-
manns og höfundarins í verkinu, sem er mjög mikilvægt í þessu
sambandi. Að grundvallarhugsun fjallar Madame Bovary um
frelsið, sem aðalpersónan er látin leita í ástinni. En þá má
spyrja, hvort nokkur önnur leið hafi verið fær fyrir konur til
frelsis og þroska á þeim tíma sem verkið var samið. Um það
fjallar t.a.m. Brúðuheimili eftir Ibsen og að vissu leyti Salka
Valka eftir Halldór Laxness, sem upphaflega bar undirtitilinn
„pólitísk ástarsaga".