Skírnir - 01.01.1977, Page 41
SKÍRNIR KVENNARANNSÓKNIR í BOKMENNTUM 39
Olgeirsson eftir hetjusögum verkalýðsins og sakar íslenskar bók-
menntir, eins og Sölku Völku, um skort á slíku sjónarmiði. I
Rétti 1932 segir hann:
Lýsingin á eymdinni er nauðsynleg og góð, en það sem við þurfum nú,
er fyrst og fremst lýsingin á þeim krafti, sem eymdin knýr fram, — og sem
yfirvinnur hana. Þess vegna er hetjusaga íslenzku verklýðshreyfingarinnar
— hvort sem hún er ein eða fleiri, stórar skáldsögur — eða margar smá-
sögur — nú hin brýnasta nauðsyn á andlega sviðinu.29
2) Hugmyndafrœðigagnrýnin er ein grein marxistískrar bók-
menntafræði, sú sem á skandinavískum málum nefnist „ideo-
logikrítík". Byggir hún einkum á raunsæishugtakinu og lítur
á bókmenntir sem speglun veruleikans.30
í kvennarannsóknum í bókmenntum leggur aðferðin áherslu
á að greina hugmyndir sem þar koma fram um konur og stöðu
þeirra í þjóðfélaginu, og setja þær síðan inn í sögulegt og félags-
legt samhengi. Hún er að því leyti andstæð forskriftarstefnunni,
að hún tekur mið af veruleikanum og hafnar þar með öllum
„jákvæðum“ og fegruðum kvenlýsingum. Bókmenntir eiga að
sýna lífið eins og það er, en ekki eins og það virðist vera eða
kannski œtti að vera. Helst eiga kvenlýsingar að vera dæmigerðar
fyrir þá stétt kvenna sem lýst er, og einnig á í þeim að vera
hægt að sjá raunverulega stöðu þessara kvenna í þjóðfélags-
heildinni.
Hingað til hefur mest borið á rannsóknum sem beinast að
því að afhjúpa falskar hugmyndir og fordóma um konur í bók-
menntaverkum. Og er í því sambandi talað um falska vitund.
Sem dæmi um rannsókn þar sem raunsætt verk er hins vegar
tekið til athugunar, má benda á einstaklega athyglisverða grein
eftir Helge Rönning um Heddu Gabler eftir Ibsen. Nefnist hún
„Könets fánge och klassens" og birtist í Ord och Bild nr. 3, 1973.
Sýnir hann þar fram á raunsæi kvenlýsingarinnar út frá þeim
tíma sem verkið var samið á, og hvernig Hedda er fangi kerfis-
ins bæði vegna kyns síns og stéttar, og á sér enga aðra leið til
frelsis en sjálfsmorð. Niðurstaða Helge Rönning er sú að Hedda
Gabler fjalli um baráttu kynjanna og upplausn borgarastéttar-
innar. Hann segir: