Skírnir - 01.01.1977, Page 49
SKÍRNIR KVENNARANNSÓKNIR í BOKMENNTUM 47
rannsókna. Eins og vikið hefur verið að, tekur hin hefðbundna
bókmenntasaga varla eða ekki til kvenrithöfunda. Þar er því
akurinn svo til óplægður. Undirstöðurannsóknir sem aðrar
bókmenntarannsóknir byggja á eru varla fyrir hendi. Varðar
það jafnt þjóðfélagsgreiningu Marx og Habermas, sem hvor-
ugur gerir ráð fyrir stöðu kvenna í þjóðfélagskerfinu, sem og
rannsóknir í sagnfræði, heimspeki og sálarfræði. Kenningar um
stéttabaráttuna standa sem sagt á gömlum merg, en hvað varðar
kvennabaráttuna eru þær varla til.
í greininni „Kvindeuddannelse, kvindebevidsthed, kvinde-
bevægelse" í Dansk debat 1975, ræðir Pil Dahlerup um þennan
skort á undirstöðurannsóknum og vanda danskra kvenstúdenta
í bókmenntafræðum. Hún segir:
At være kvindelig studerende ... kræver teoretisk dobbeltarbejde. Först skal
vi sætte os ind i alle teorierne om klassekampen i dens materielle og ideolo-
giske udformninger, og bagefter skal vi udarbejde teorier om, hvilke kon-
sekvenser klassekampsteorierne fár for kvindekampen, materielt og ideo-
logisk. Hvis vi sá har dobbeltarbejde i forvejen, sá har [dettej ... medfört
en fordobling af dobbeltarbejdet.41
Það eru ekki kvennarannsóknirnar sjálfar sem óska eftir sér-
stöðu. Vanræksla karlveldisþjóðfélagsins hefur skipað þeim
þennan bás.
Það er ekki fyrr en á allra síðustu árum að farið er að huga
að kvennarannsóknum yfirleitt, en á þeim tíma hafa komið fram
ýmsar athyglisverðar kenningar um stöðu og hlutverk kvenna,
sem styðjast má við í bókmenntarannsóknum. T.a.m. má nefna
rit Juliet Mitchell og Maria Marcus, og greinasöfnin Kvinno-
myter (red. Eva Adolfsson o.fl.), Kvindesituation og kvinde-
bevœgelse under kapitalismen (red. Signe Arnfred o.fl.) og
Woman in Sexist Society (ed. Vivian Gornick o.fl.). Góð marx-
istísk greining á stöðu kvenna í framleiðslunni er í 6.-7. hefti
af Rddsmakt 1975, undirrituð KK.45
Einangrun eða sérstaða kvennarannsókna er því fyrst og fremst
sögulegs og hugmyndafræðilegs eðlis, og hún er nauðsynleg
þangað til unnið hefur verið upp það sem vanrækt hefur verið
og greinin getur staðið jafnfætis öðrum greinum bókmennta-
fræðinnar.