Skírnir - 01.01.1977, Side 198
196
RITDÓMAR
SKÍRNIR
NORRÖN NIDDIKTNING 2 : 1-2
Nid mot missionarer. Senmedeltida nidtraditioner
Av Bo Almqvist. Uppsala 1974
Þecar Bo Almqvist sendi doktorsrit sitt frá sér í ársbyrjun 1965 og nefndi
það Norrön niddiktning 1, vantaði ekki að vinir hans settu fram hrakspár
um að nú myndi liann falla í sömu gryfju og ýmsir ágætir fyrri fræðimenn,
sem farið hefðu af stórhug af stað með efnisflokka sem síðan hefðu gufað
upp. En Bo Almqvist lét slíkar hrakspár ekkert á sig fá. Og nú hefur hann
sýnt að þær höfðu ekki við rök að styðjast, því að Norrön niddiktning 2 er
löngu komin út og stendur vel fyrir sínu.
En þar með er ekki öll sagan sögð, því að þessi tvö bindi um norrænan
níðskáldskap eru raunar inngangur að öðru verki, sem Bo Almqvist hefur
verið með í smíðum hátt í tvo áratugi, riti um íslenskan ákvæðaskáldskap
síðari tíma. I formála þessa bindis getur hann þess, að með því sé lokið að-
draganda að umfjöllun um ákvæðaskáldskapinn. Rannsókn á níðinu hafi
verið nauðsynleg forsenda, m. a. til að komast að niðurstöðu um, hvort í
níðinu fælust eigindir galdurs eða töfra. En um þetta atriði hafa skoðanir
eldri fræðimanna verið skiptar.
Meginkafli þessa rits heitir „Nið gegn trúboðum". Er þar um að ræða
þá trúboða, sem störfuðu á íslandi í lok tiundu aldar, Þorvald víðförla og
Friðrik biskup, Stefni og Þangbrand, en níði var að sögn beitt gegn þeim
öllum. Aður en höfundur tekur þetta níð til meðferðar, rekur hann í
stuttu máli sögu trúboðsins og kristnitökunnar og setur fram það sem
hann telur að mestu hafi valdið um að kristni komst á hér á landi með svo
friðsamlegum hætti sem raun bar vitni. Er rétt, áður en lengra er haldið,
að rekja þessa skýringu í fáum orðum.
Bo telur, að hin harðsnúnu átök á milli heiðinna manna og kristinna, sem
einkenndu síðustu ár tíundu aldarinnar, hafi valdið hér miklu um. Er
frændur snerust gegn frændum, smánarorð, níð og bölbænir gengu á víxl,
með tilheyrandi vígaferlum, hafi tilvist þjóðveldisins sjálfs verið ógnað.
Kristni og heiðni hafi tekist á og Kristur og Æsir átt virkan hlut að átök-
unum. Stundum hafi trúboðarnir farið með sigur af hólmi og túlkað það
sem kraftaverk, en stundum hafi þcir orðið að þola andstreymi og niður-
lægingu, sem heiðnir menn hafi túlkað sem vitnisburð um mátt heiðinna
goða. Kristnin hafi sótt á en heiðnin eflst í átökum fyrir lífi sínu og nú
hafi heiðnir guðir, einkum Þór, verið ákallaðir af meiri trúarhita en áður
bæði í guðsdýrkun og ljóði. En andspænis aukinni trúarvissu og trúarhita
hafi einnig brotist út vonleysi og örvænting. Tillitsleysi og ofbeldi þessa
tíma hafi verið jarðvegur fyrir dómsdagshugmyndir Völuspár, að bræður
muni berjast, vindöld og vargöld ríkja og enginn maður þyrma öðrum.
Tortíming samfélagsins, er blasað hafi við, hafi valdið því, að trúin var
ekki lengur í brennidepli. Þessar ytri aðstæður telur Bo að hafi valdið