Tímarit Máls og menningar - 01.11.2012, Side 57
A ð l e s a T í m a n n o g va t n i ð I I
TMM 2012 · 4 57
fari mikið forgörðum við prósaíska endursögn, og þá velkist enginn í vafa
um að tala megi um merkingu, en í hið síðara verður ‚efnið‘ ekki endilega
rakið með öðru orðalagi og þá spyrja menn gjarna: ‚Hvað þýðir þetta, hver er
merkingin?‘ Hvað þýðir til dæmis ljóðlínan „Nóttin í silkivöggu allra veðra“
eftir Hannes Sigfússon? Svarið hlýtur að verða: Bókstafleg merking línunnar
er ‚nóttin í silkivöggu allra veðra‘ en það sem hún miðlar leyfir ekki endur-
sögn, áhrifamáttur hennar hyrfi við umorðun. Bersýnilega er ekki hægt að
segja það sama á tvo, hvað þá fleiri, mismunandi vegu.
Í lokagerð sinni er Tíminn og vatnið fjarri því að vera einsleitt verk. Og
lestur flokksins getur aldrei orðið einhlítur. Ég tel þó að greina megi í honum
þrjá meginþætti og tvö meginþemu. Skiptingin gæti verið á þessa leið:
1) Ást og ástarharmur: Ljóð nr. 2, 5, 8, 10, 15, 17, 19 – alls sjö ljóð, þriðjungur
bálksins.
2) Skáldið, dauðinn og framhaldslíf ljóða þess: Ljóð nr. 1, (6), 12, 16, 21 – alls
fjögur til fimm ljóð. Þau gætu verið ort um svipað leyti, eitt er birt 1946 og
fjögur 1947.
3) Ljóðið sem heterokosmos, bókstafleg merking: Ljóð nr. 3, (6), 7, 9, 11, 13, 14,
18, 20 – alls átta til níu ljóð, og þar með stærsti þátturinn.
4) Eitt ljóð stendur utan þessa ramma: Ljóð nr. 4 („Alda, sem brotnar á eirlitum
sandi“), sem er óbrotin sjónræn (ímagísk) smámynd og vísbending um að
Steinn lét sér umhugaðra um fjölbreytileika flokksins en einsleitni.20
Samkvæmt þessu yfirliti mætti lesa eitt ljóð að minnsta kosti hvort heldur
væri þematískt eða bókstaflega. Eflaust gildir það um fleiri ljóð enda hæpið
að skiptingin milli annars og þriðja flokks geti orðið ótvíræð. Meginþemun
tvö eru að því leyti ólík að menn hafa eins og áður segir verið tiltölulega sam-
mála um ástarelegíurnar frá upphafi. Um skáldþemað eða ódauðleikaþemað
hef ég hinsvegar ekki séð fjallað áður með skýrum hætti sem annað helsta
þema flokksins. Þó komst Peter Carleton svo að orði um lokaljóðið:
Eilífðin er tvíræð […] Hún minnir á dauða skáldsins, en líka á þann ódauðleika sem
er hlutur góðra kvæða. Skáldið hefur búið kyrfilega um sig í eilífðinni með kveð-
skap sínum.
Og niðurstaða hans í greinarlok er í samræmi við það:
Eilífðin, dauðinn, ódauðleikinn geymir þessi kvæði og kvæðin eru óræður draumur.
[…] Steinn býr sig undir dauðann […] Veröld kvæðanna er heimur út af fyrir sig.21
Ég vil í meginatriðum taka undir þessi orð. Ljóðin í Tímanum og vatninu
eru kveðjuljóð: „Steinn býr sig undir dauðann“. Hann virðist hafa gengið
að því sem vísu að flokkurinn yrði sitt síðasta verk, með því væri hann að
kveðja. Til þess bendir eindregið sá langi tími sem hann tók sér til að ganga
frá flokknum og gerðirnar þrjár.
Ritgerð Carletons, sem birtist sex árum eftir lát Steins, var fyrsta bók-