Tímarit Máls og menningar - 01.11.2012, Page 58
Þ o r s t e i n n Þ o r s t e i n s s o n
58 TMM 2012 · 4
mennta lega umfjöllun um Tímann og vatnið sem þá einkunn á skilið og
er að mörgu leyti einhver sú besta enn að mínum dómi. Hún fjallar að
vísu einungis um fyrri gerð flokksins, þá sem út kom 1948. Afar mikilvæg
textafræðileg rannsókn á handritum Steins og tilurðar- og útgáfusögunni
kom síðan árið 1971 frá hendi Sveins Skorra Höskuldssonar.22 Við hana
hljóta allar seinni rannsóknir á ljóðaflokknum að styðjast.
***
Nú er þess að geta að til eru skýringar Steins sjálfs á fáeinum ljóðum Tímans
og vatnsins. Í viðtali við Matthías Johannessen sem birtist í Nýju Helgafelli
1958 sagði hann til dæmis:
Það er engin formbylting í þessum kvæðum. Tíminn og vatnið er, eins og þú veizt
sjálfur, varíeraðar terzínur. Það er ákaflega gamalt form og þrælklassískt. Terzín-
urnar í Tímanum og vatninu eru ekki alltaf reglulegar, það er öll formbyltingin.
Ljóðaflokkurinn í heild er upphaflega hugsaður sem ballett, byggður á goð- og
helgisögnum. Jú, það var nú meiningin, hvað sem þú segir. Eitt kvæði studdist t.d.
við Veda-bækurnar, annað við sagnir um Parsival og Graal [„Gagnsæjum vængjum
flýgur vatnið til baka“] – og enn annað við för Odysseifs [„Vatn, sem rennur um
rauðanótt“].
Og í öðru viðtali við Matthías, hinu óviðjafnanlega Miðnætursamtali:
Ég hef tekið eftir því, að Tíminn og vatnið er mjög misskilin eða réttara sagt óskilin
bók. Upphaflega hugsaði ég mér þennan ljóðaflokk sem texta að ballett, ef hægt er
að segja sem svo, í nánum tengslum við ákveðnar helgisagnir og þjóðsögur. Þetta
virðist enginn hafa gert sér ljóst og sennilega ég ekki heldur [leturbr. hér]. Í raun og
veru gafst ég upp við þetta fyrirtæki í miðjum klíðum, og útkoman er þar af leiðandi
dálítið öðru vísi en til var ætlazt.23
Hér höfum við þá frá fyrstu hendi kærkomnar upplýsingar: að form Tímans
og vatnsins sé varíeraðar terzínur og bálkurinn hafi upphaflega verið
hugsaður sem balletttexti, byggður á goð- og helgisögnum. Nánar tiltekið
Vedabókunum, Gralsögnunum, Ódysseifskviðu og fleiri heldri ritningum
veraldar. Ýmsir hafa litið á þessi orð Steins sem lykil að ljóðaflokknum, þó
skáldið segðist reyndar hafa gefið ‚fyrirtækið‘ upp á bátinn. Þannig skrifaði
Matthías Viðar Sæmundsson:
Í ljóðabálkinum er lítið um beinar tilvísanir í daglegan reynsluheim, málnotkun er
órökleg, efnislegir og hljómrænir þættir teknir fram yfir merkingu; skynhrif skipta
og meira máli við lesturinn en röklegur skilningur. Engu að síður er bálkurinn eitt
hefðbundnasta bókmenntaverk á íslenskri tungu [leturbr. Matthíasar Viðars]. Hann
er hlaðinn vísunum í menningararf og goðsagnir. Hins vegar virðist hann vera
abstrakt af því samband hans við annað er ekki augljóst heldur óljóst og torrætt.24