Hugur - 01.01.2015, Qupperneq 20
20 Jón Ásgeir Kalmansson ræðir við Pál Skúlason
Já, ég held að það sé rétt, en það er líka rétt að nefna í þessu sambandi að Sartre
er ekki með þessa hugmynd um merkingarheiminn. Fyrir hann er heimurinn
tvískiptur, annars vegar höfum við veruleika sem er hinn hlutlægi veruleiki sem
hvílir í sjálfum sér og Sartre kallar veruna-í-sér, ef maður þýðir það orðrétt úr
frönsku og ég þýði sem íveruna, og hins vegar er það sem hann kallar veran-
fyrir-sig eða veran sem er vera vitundarinnar þar sem frelsið kemur til sögunnar,
sem er eiginlega vera í andstöðu við veru hlutanna. Þetta er þá algerlega huglæg-
ur veruleiki vitundarinnar sem er að verki í okkar mannlega veruleika og hvergi
annars staðar eins og Sartre leggur það upp. Mér virðist að merkingin sé í hans
huga bara eins og merking tungumálsins eða merking í svokölluðum fyrirbæra-
fræðilegum skilningi, sem er það að hlutirnir eru eitthvað tiltekið fyrir okkur og
það er vitund okkar að endingu sem ákvarðar þessa merkingu, ákvarðar hvað þeir
eru fyrir okkur, þessir hlutir sem liggja þarna í veruleikanum, óræðir og lokaðir
inni í sjálfum sér, eins og hann lýsir í hinni svonefndu íveru. Þannig að þarna er
einföld tvískipting sem mér finnst ekki duga til að móta þá heimspeki eða réttara
sagt frumspeki sem ég er að reyna að nota.
Þú hafnar þá slagorði Sartres að tilvistin sé upprunalegri en eðlið, að maðurinn sé
algjörlega óháður einhverju fyrirfram ákvörðuðu eðli, að við séum bara hreint frelsi?
Ég held að Sartre hafi kannski ekki verið með aðaláhersluna á að móta heil-
steypta frumspekikenningu, hann lét sér nægja þennan greinarmun á sérverunni
og íverunni. Hvað varðar setninguna „tilvistin er upphaflegri en eðlið“, sem er ein
frægasta setning Sartres úr bókinni Tilvistarstefnan er mannhyggja, held ég að ég
myndi segja að hún sé sönn innan þeirra marka að við skiljum hvað það er að vera
frjáls í þeim skilningi sem hér er um að ræða.
Ég spyr þig þá bara næst, hvaða skilning leggur þú í þessa hugmynd að það sé til
merkingarheimur sem sé í einhverjum skilningi óháður okkur sem einstökum hugsandi
verum?
Ég á við að það sé til ákveðinn heimur, við skulum kalla hann heim hugtaka, sem
gerir okkur mögulegt að uppgötva heiminn í senn sem skiljanlegan og óskiljan-
legan. Spurningin er eiginlega í hvaða skilningi er hann óskiljanlegur fyrir okkur
og í hvaða skilningi er hann skiljanlegur?!
Er þessi merkingarheimur sjálfstæður í þeim skilningi að hann héldi áfram að vera til
þó við mennirnir myndum hverfa út úr heiminum?
Já, ég held það. Ég held að hann yrði tvímælalaust til áfram þó við myndum
hverfa og allar vísbendingar eru um það að við munum hverfa löngu áður en al-
heimurinn hverfur, ef hann hverfur nokkurn tímann. Ástæðan fyrir því að ég segi
þetta er sú trú mín að hugsunin sem við erum að takast á við í heimspeki er ekki
bara mannleg hugsun sem er bundin því hvernig við erum gerð líkamlega. Hún
er líka háð því hvernig við tölum, hvernig tungumálið er, þannig að það eru mörg
skilyrði fyrir mannlegri hugsun sem eru sérstök. Jafnframt trúi ég því að það sé til
hugsun sem sé almenn og algild og gildi alls staðar, jafnvel í öllum hugsanlegum
Hugur 2015-5.indd 20 5/10/2016 6:44:58 AM