Hugur - 01.01.2015, Síða 30
30 Jón Ásgeir Kalmansson ræðir við Pál Skúlason
afskaplega mikilvægur í þessu sambandi; að það er eitt að túlka setningar sem
hafðar eru eftir manni eins og eftir Platoni sem teknar eru úr bókum hans, og
hitt að reyna að túlka hugsun Platons, þ.e.a.s. nákvæmlega hvað það var sem vakti
fyrir Platoni í því sem hann var að segja, eða hvað hann var að hugsa þegar hann
var að orða sínar hugsanir. Eitt er að skilja hugsun höfundar og annað er að skilja
það sem hann segir. Greinarmunurinn á því sem vakir fyrir höfundinum að segja
og því sem hann í raun og veru segir. Þarna eru tvær viðmiðanir í túlkunarfræði.
Annars vegar þessi að við túlkun er meginreglan sú að maður tekur mið af því
sem höfundurinn vildi sagt hafa og reynir að setja sig í fótspor hans og hugsa hans
hugsanir. Hins vegar er hægt að líta svo á að þetta sé ekki hægt, við getum aldrei
sett okkur í spor einhvers eða hugsun annars manns hversu vel sem við þekkjum
hann. Ástæðan sé sú að það er ákveðin fjarlægð á milli huga okkar sem aldrei
verður fyllilega brúuð, en segja má að túlkunin sé samt tilraun til að brúa hana, án
þess að sú tilraun muni nokkurn tímann takast nema að ófullkomnu leyti. Síðan
er þá hin hliðin á málinu sem er að taka mið af aðstæðum orðræðunnar sem um
er að ræða að túlka. Þá er maður kominn inn í ákveðið málsamhengi, ákveðið
samfélag, það er ekki einræða í gangi, heldur eru kannski margir sem taka til máls,
þannig að það sem sagt er verður ekki skilið nema í tilteknu málsamfélagi sem
margir taka þátt í.
Þegar þú lýsir þessu svona vakna ýmsar spurningar og manni gæti kannski fundist að
túlkun eða skilningur á orðum og hugsunum annarrar manneskju sé alveg óleysanlegt
verkefni, sérstaklega ef hún er hluti af annarri menningu fyrir löngu síðan. Við höfum
kannski ekki nema óbeina þekkingu á þeirri menningu. Síðan er auðvitað okkar eigin
menning sem mótar okkar hugsanir, skilning og túlkun. Hvernig sérðu fyrir þér að það
sé hægt að brúa þetta bil?
Þetta er feikilega spennandi verkefni og erfitt að sama skapi og að minnsta kosti
ekki unnt að gefa neitt viðunandi svar við þessari spurningu. Þó held ég að eitt af
því merkilegasta við mannlífið sé sú staðreynd að við erum hvert öðru meira og
minna skiljanleg. Við getum skilið framandi menningarheima með því að læra
þau táknmál og þá siði og þá lífsmáta og þær hugmyndir sem þróast í hinum ólíku
menningarkimum eða menningarheimum. Það má spyrja sig þeirrar spurningar,
hvernig í ósköpunum standi á því að það skuli vera til fleiri en eitt tungumál, að
við skulum ekki öll tala sama tungumál sem væri hið rökrétta. Túlkun stafar af því
að það er ekki til eitt tungumál, heldur mörg, og við erum sífellt að hlaupa á milli
hinna ólíku tungumála og túlkunin er aðferðin sem við beitum. Ef við víkjum að
heimspekinni hér, er margt sem bendir til þess að sömu grunnhugtökin séu að
verki í hinum mismunandi tungumálum, þannig að það séu þau, þ.e.a.s. ákveðin
frumhugtök eða grunnhugtök sem skapi þannig skilyrði fyrir þennan sameigin-
lega skilning og fyrir hina mismunandi túlkun.
Hvernig tengist túlkun að þínum dómi skilningi, og jafnframt því sem kallað hefur
verið í túlkunarfræðum forskilningur?
Hugur 2015-5.indd 30 5/10/2016 6:45:02 AM