Hugur - 01.01.2015, Qupperneq 58
58 Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson
Tvíræðni Leib: Hlutgerving líkamans
Líkaminn hefur hins vegar alltaf innbyggða ákveðna tvíræðni. Þegar við beinum
sjónum okkar að hinum lifða líkama þá hlutgerum við hann. Í þeirri hlutgervingu
birtist líkaminn okkur sem hvort tveggja, Leib og Körper. Þegar ég strýk hægri
hendi minni yfir þá vinstri þá finnur hægri hönd mín áferð þeirrar vinstri, fína
og mjúka húðina ofan á handarbakinu samanborið við grófari húðina í lófanum.
Ég get hér hlutgert vinstri hönd mína, en ég get líka snúið skynjuninni við, ég
get beint mér í „hina áttina“, og fundið með vinstri hendinni hvernig einstakir
fingur dragast eftir henni. Hendur mínar geta því verið hvort tveggja, hið snert-
andi og hið snerta. Það er í þessari tvíræðni sem líkaminn getur birst mér sem
hlutur meðal hluta. Höndin birtist mér þá sem Körper, sem eitthvað sem deilir
umhverfi sínu með bollum, hjólum og húsum. Hins vegar birtist mér höndin á
sama tíma sem eitthvað sem hefur eitthvert „innra“. Ef við leyfum okkur að hunsa
þetta „innra“ og tölum aðeins um höndina sem það sem er hlutgert, líkamann
sem Körper, þá höfum við einangrað frá líkamanum mikilvægan þátt þess að vera
líkami. Hér bendir Husserl á að innan hinnar náttúrulegu afstöðu þá lítum við
gjarnan á líkamann sem Körper en hugsum sem svo að með túlkun getum við
bætt hugmyndinni um hið „innra“ við þennan efnislega hlut og þá á einhvern
hátt fengið fyllri skilning á honum, sem efnislegum hlut. Raunin sé hins vegar
sú að þegar við skiljum þetta „innra“ til fullnustu þá birtist okkur hinn efnislegi
hlutur ekki lengur sem slíkur, heldur „verður hann að lifðum líkama [Leib], hann
skynjar“.29 Skynjunin er ekki eiginleiki líkamans sem efnislegs hlutar, heldur sem
Leib, lifðs líkama, sem einhvers sem skynjar. Skynjunin birtist í gagnvirkni hins
lifða líkama við umhverfi sitt, hún birtist þegar líkaminn er snertur, honum ýtt,
hann stunginn o.s.frv. „Snerting tekur til efnislegs viðburðar. Tveir lífvana hlutir
geta snerst, en þegar hinn lifði líkami snertir fylgir því samtímis skynjun á honum
og í honum.“30
Hér myndi orðalag Heideggers kannski skýra málin, en hann fullyrðir að hlutir
geti verið hlið við hlið, legið alveg hvor upp að öðrum, en þeir geti ekki „snerst“
því snerting sé eiginleiki Dasein, þ.e. vitundarinnar.31
Það er einmitt í tvískyninu þar sem okkur verður ljóst að hið skynjaða og hið
skynjandi eru tvær birtingarmyndir sama hlutarins. Með því að geta snert og vera
snert birtist hönd mín því bæði sem eitthvað „innra“ og eitthvað „ytra“ og mér
verður ljóst í tvískyninu hvernig þetta innra og þetta ytra eru birtingarmyndir
sama fyrirbæris.
Ef ég til dæmis sker mig í fingurinn þá hef ég bæði tilfinninguna fyrir að hold
mitt hafi rofnað og sársaukann sem við það myndast, en samtímis get ég líka litið
29 Sama: 152.
30 Sama: 154.
31 Heidegger, 1962: 81. Um snertingu veggjar og stóls segir hann: „Strangt til tekið, þá erum við ekki
að tala um „snertingu“ í slíkum dæmum. Ekki vegna þess að við nánari rannsókn þá verði okkur
ljóst að það er alltaf smá rými á milli stólsins og veggjarins, heldur vegna þess að samkvæmt
skilgreiningu getur stóllinn aldrei snert vegginn, jafnvel þótt rýmið milli þeirra væri ekkert. Ef
stóllinn gæti snert vegginn, þá yrði að gera ráð fyrir því að veggurinn væri eitthvað sem stóllinn
gæti mætt.“ Seinasta setningin á frummálinu: „Voraussetzung dafür wäre, dass die Wand „für“
den Stuhl begegnen könnte.“
Hugur 2015-5.indd 58 5/10/2016 6:45:09 AM