Hugur - 01.01.2015, Side 87
Efi, skynsemi og kartesísk endurhæfing 87
sem ein hugmynd er leidd rökrétt af annarri. Það væri raunar óhugsandi, því að
hugmyndir um líkamlega hluti sem þessari innsýn myndi líklega verða beitt á,
eru, eins og við sáum fyrr, óhreinar eða mengaðar og brjóta því í bága við hina
hreinu skynsemi. Hin spillta rökfærsla fanga fordómanna tekur á sig mynd eins
konar útreiknings sem beitt er á hugmyndir um líkamlega hluti (einkum þá sem
gefnir eru í ímynduninni); hún er hliðstæð því að telja þegar við erum að reikna;
við að draga upp huglægar teikningar í rúmfræði; og í rökfræðilegum ályktunum
(„díalektík“) er hún hliðstæð við beitingu formúlukenndra reglna á texta (sem
dæmi sjá Reglur X). Þetta er allt mjög frábrugðið beitingu hreins innsæis skyn-
seminnar. Samfara spillingu skynseminnar, sem stafar af því að hún er knúin til
að fást við líkamlega hluti, fer vanmáttur fanga fordómanna til að ná réttum tök-
um á helstu grundvallarforsendum réttrar skynsemi. Eins og Descartes sagði við
Burman:
Því að hvað varðar almennar frumforsendur og frumhæfingar, til dæmis
það er ómögulegt að sami hluturinn sé og sé ekki, þá athuga eða skoða þeir
menn sem eru ofurseldir skilningarvitunum, sem við erum allir áður en
við leggjum stund á heimspeki, þær … aðeins á afbakaðan hátt; en aldrei
einar og sér [in abstracto] og óháð efninu og einstökum hlutum. [AT
5:146]
III
Þó að fangi fordómanna geri sér það aldrei ljóst er líf hans hreinasta hörmung –
þekkingarfræðilega séð. Ekkert sem hann hugsar er í raun tært eða hreint; ekkert
sem hann fellst á er satt. Vitaskuld er margt sem honum virðist afar tært og
hreint, en það er allt annar handleggur. „Aðeins hinn vitri,“ segir Descartes, „kann
að greina réttilega milli þess sem er skynjað með þeim hætti og hins sem sýnist
aðeins eða virðist vera tært og hreint“ („Svör við andmælum, VII“: HR II:267).
Eins og við sáum geta aðeins hugmyndir um líkamlega hluti komið upp í huga
þess sem er fangi fordómanna, hugmyndir sem eru mengaðar, enda þótt þær séu
stundum skýrar, tærar og fjörmiklar, og geta því með engu móti verið sannar,
samkvæmt Descartes.
Sálargáfurnar, sem eru fanga fordómanna uppspretta þekkingar, eru „skynjun“
og skynsemi, og af þeim tveim treystir hann „skynjuninni“ betur. En í rauninni
skapar „skynjunin“ aðeins sannfærandi blekkingu. Hún er, eins og við sáum, ekki
sjálfstæð sálargáfa, heldur blanda skynjunar og skynsemi, þar sem hvorug er rétti-
lega metin að eigin verðleikum. Hin eiginlega skynjun er sálargáfa „tilfinninga“
– hugmynda sem kunna að vísu að vera orsakaðar af hlutum sem eru til, en eru
samt ekki skynjanir á slíkum hlutum (líkamlegum eða annars konar); þær eru
í rauninni ekki skynjanir á neinu. Skynjanir sýna ekkert og líkjast engu nema
sjálfum sér; þær eru aðeins hættir hugsunar.
Hugur 2015-5.indd 87 5/10/2016 6:45:17 AM