Hugur - 01.01.2016, Page 14
14 Björn Rúnar Egilsson ræðir við Christopher Mole
verkefnin gera ekki miklar kröfur til okkar. Ég gæti horft út um gluggann og svo
fremi sem ekkert annað á sér stað þá krefst verkefnið ekki mikillar hugrænnar
getu og því er fyrir hendi sá möguleiki að veita einhverju öðru athygli á sama
tíma. En um leið og eitthvað gerist fyrir utan gluggann þá hverfur möguleikinn
á skiptri athygli.
Er það ekki þannig að það verður erfiðara þegar frálag tveggja verkefna er það sama
(t.d. að íhuga það sem er að gerast í tveimur verkefnum samtímis)? Er frálagið lykill-
inn að því að skera þarna á milli?
Það sem gerir okkur erfitt fyrir er að bakgrunnsmengin sem virkjast við fram-
kvæmd verkefnanna vilja gjarnan skerast og þegar það gerist, er ekki hægt að
skipta athyglinni. Mér sýnist það vera ein af grunnstaðreyndum mannlegr-
ar sálfræði að við höfum takmarkað vinnsluminni. Vinnsluminnið er hugræn
geta sem við notum í ótal margt og lendir þannig nánast alltaf á skurðpunkti
bakgrunnsmengja mismunandi verkefna. Það veldur þessum kastljósseiginleika –
þörfinni fyrir að einbeita sér að einhverju afmörkuðu – vegna þess að við þurfum
að velja í hvað við ætlum að nýta vinnsluminnið.
Athygli sem slík tengist fleiri fræðigreinum en heimspeki. Við þurfum aðeins að leiða
hugann að fólki sem glímir við sjúkdóma á borð við ADHD og ADD og vinnunni
við að þróa meðferðarúrræði og lyf við þeim. Í bókinni segirðu að möguleikinn á at-
viks-frumspekilegri (e. adverbial metaphysics) nálgun á athygli geti haft þýðingu
fyrir framgang vísindanna. Kemurðu auga á einhverjar praktískar afleiðingar sem
kenningin þín hefur fyrir starfandi sálfræðinga eða læknisfræðilegar rannsóknir?
Ja, ég veit það nú ekki, ég er nú einu sinni bara heimspekingur. (Hlær.) Af-
leiðingarnar gætu verið neikvæðar. Án þess að þekkja kenninguna gætir þú
haldið, eins og margir sálfræðingar halda í dag, að það sé eitthvert ferli í heil-
anum þar sem hægt er að staðsetja athygli. Ef þú ert þeirrar skoðunar gætirðu
einnig haldið að það sé vel þess virði að reyna að þróa tækni sem tekur myndir af
taugaboðum í þeim tilgangi að sjúkdómsgreina ADHD. Þú gætir einnig fengið
þá flugu í höfuðið að það sé góð hugmynd að meðhöndla ADHD með því að
setja rafskaut á þau svæði heilans, eða eitthvað slíkt. Ég held að slík nálgun sé
röng af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að ég held að það sé ekki hægt
að staðsetja athygli í heilanum á þennan hátt og í öðru lagi vegna þess að ég er
ekki viss um að ADHD sé fyrst og fremst brestur á athygli. Það er reyndar ekki
svo umdeild skoðun nú til dags. Krakkar með ADHD eru fullkomlega fær um að
halda athygli, kannski ekki í langan tíma og ekki alltaf á því sem við viljum að þau
veiti athygli, en ef við leyfum þeim að spila tölvuleiki standa þau sig ágætlega. Þau
eru hins vegar ekki góð í að halda athyglinni í skólastofunni og að veita truflandi
áreiti viðnám. Það er hægt að draga þetta enn betur fram með því að gera tilraun-
ir þar sem krakkar með ADHD takast á við sjónræn athyglispróf þar sem þau
standa sig ekkert verr en venjuleg börn. Ég held að ADHD snúist í rauninni ekki
um það að vera ófær um að veita athygli, þannig að það væri alltaf stór gjá á milli
Hugur 2017-6.indd 14 8/8/2017 5:53:13 PM