Hugur - 01.01.2016, Síða 39
Heildarsýn 39
þáttar reynslunnar sem hægt er að segja að allt sem við upplifum sé leyndardómur.
Mannleg reynsla er leyndardómur að því leyti að orð, hugtök og rök ná aldrei að
gera tæmandi grein fyrir henni þótt þau hjálpi okkur að ýmsu leyti við að öðl-
ast gleggri skilning á henni. Heimspekin, líkt og listirnar, trúarbrögðin og fleiri
greinar hljóta að leitast við að taka þennan leyndardóm reynslunnar alvarlega og
nálgast hann með sínum hætti. Ella er hætt við að hugsunin taki að snúast fremur
um líflausan bókstafinn en þá lifandi reynslu sem glæddi hann og þann hátt á að
lifa lífinu sem hæfir leitinni að visku.
Þótt leyndardómur stærðar og margbreytileika alheimsins og hinnar lifuðu
reynslu sé mikilvægur er sú tegund leyndardóms sem öðrum fremur glæðir hina
heimspekilegu undrun og yfirvegun enn ónefnd. Þetta er fjórða mögulega merking
þess þegar sagt er að eitthvað sé ofvaxið mannlegum skilningi. Til að gefa hana
til kynna má leita í smiðju Williams James en hann beitir ítrekað líkingu sem
ætlað er að hjálpa okkur að skilja í hverju leyndardómur af þessu tagi er fólginn.38
Dæmið sem James notar er í stuttu máli þannig: Samband okkar við veruleikann
er líkt og samband heimilishunda okkar og -katta við veruleika mannfólksins.
Gæludýrin sjá okkur mennina aðhafast margt, eins og að sitja langtímum saman
og stara á hluti eða slá fingrunum á þá ótt og títt, gefa látlaust frá okkur hljóð,
og sýna af okkur ýmsa aðra flókna og furðulega hegðun, án þess að hafa minnstu
hugmynd um hvað hún þýðir. Þessir ferfættu vinir deila með okkur heimili og
sambandið við þá er gagnkvæmt og gefandi á margan hátt en fyrir þeim er okkar
heimur engu að síður að miklu leyti lokaður eða ósýnilegur. Við lifum í víðari
heimi, ef svo má að orði komast, vegna þess að við höfum ekki aðeins innsýn í
hið skynjanlega, eins og gæludýrin okkar, heldur einnig í hið skiljanlega – heim
merkingar, hugmynda og hugtaka.39 Ályktunin sem James dregur af þessari lík-
ingu er að okkar mannlega reynsla sé mögulega ekki æðsta form reynslu sem til
er, að lífi okkar geti líkt og lífi dýranna verið lifað í víddum veruleikans sem við
höfum takmarkaðar forsendur til að skilja. James trúði því staðfastlega sjálfur að
aðstæður okkar væru í líkingu við aðstæður íbúanna í Flatlandi Edwins Abbott
sem lifa aðeins í tveimur víddum og eiga þess vegna ekki svo auðvelt með að skilja
að það sem þeir skynja sem hringi og ferninga sé í raun birtingarmynd „einhvers
meira“, það er vísbending um leyndardómsfull fyrirbæri sem nefnd eru nöfnum á
borð við kúlur og kassar.40
Við sem nú erum uppi og lifum á tímum svokallaðrar strengjafræði, er ku gera
ráð fyrir að gjörvallt tíma-rúmið sé í 10 eða 11 og allt að 26 víddum, ættum ef til
vill að hafa betri forsendur en fyrri kynslóðir til að kunna að meta „víddarleyndar-
dóm“ af þessu tagi. Sá leyndardómur sem vekur heimspekilega undrun gefur þó
til kynna víddir af öðru tagi sem standa daglegri reynslu að mörgu leyti nær.
William James talar um að stundum fáum við skýrar vísbendingar um „andlegt
38 Sjá til dæmis „Is Life Worth Living?“, James 1992: 499, og Pragmatism, James 1987: 619.
39 Það ætti ekki að draga úr gildi líkingarinnar þótt ýmsar nýlegar rannsóknir bendi til þess að dýrin
séu mun skynsamari en áður var talið. Um þessar rannsóknir, sjá meðal annars Bekoff and Pierce
2009.
40 Abbott 2015.
Hugur 2017-6.indd 39 8/8/2017 5:53:20 PM