Hugur - 01.01.2016, Page 57
Hugsun hneppt í kerfi 57
sýn vera sambærilegt áformi Habermas, en við nánari skoðun má sjá að áform
þeirra Páls eru útfærð með gjörólíkum hætti. Að baki þessum mun liggur ólíkur
skilningur á stöðu og mætti mannlegrar skynsemi sem kallar á nánari umfjöllun.
3
Í fyrstu bók sinni, Hugsun og veruleiki, skrifar Páll:
Skynsamleg umræða miðar ekki að því að sanna eða hrekja ákveðna
skoðun, heldur að því að móta rökræna umdeilanlega heildarskoðun
á tilverunni. Hún krefst stöðugra rökræðna, vegna þess að sú heildar-
skoðun sem hún vill á að verða raunverulegt hlutskipti allra. […] Of-
beldið er afneitun á heildarskipulagi mannlegrar tilveru; það kemur fram
sem andstæða allrar skipulegrar tilraunar til að móta skynsamlegt líf.28
Páll hnykkir á þessu viðhorfi í síðustu bók sinni þegar hann segir með skírskotun
til Plótínosar spurningu heimspekinnar vera „hver sé merking hins Eina. […]
Hér kemur kerfishugsunin til sögunnar sem miðar að því að gera okkur kleift
að hugsa fræðilega það sem við höfum ekki enn náð að höndla í hugtökum, hið
óhugsanlega og óskiljanlega. Til að greina hvernig merking verður til þurfum við
að skilja þessa viðleitni til að hug-taka hið Eina.“29
Frá sjónarhóli Habermas er þessi áhersla Páls á að móta „heildarskoðun á til-
verunni“ frumspekilegt viðhorf sem tilheyrir heimspeki sem hefur runnið sitt
skeið. Samkvæmt greiningu hans er eitt megineinkenni frumspekilegrar hugsun-
ar einmitt viðleitnin til þess að móta heildarmynd af veruleikanum sem er höfuð-
verkefni heimspekinnar að mati Páls. En Habermas færir rök fyrir því að hlutverk
heimspekinnar feli í sér að taka verði mið af vísindalegri aðferð sem breyti bæði
verkaskiptingu heimspeki og vísinda og stöðu heimspekilegra staðhæfinga.30
„Hugmyndin um gagnrýna prófun kemur í stað hugmyndarinnar um grundvöll-
un.“31 Frá sjónarmiði Páls er frumspeki hins vegar jafnsjálfsögð heimspekileg
viðleitni nú og á dögum Forn-Grikkja.32 Hann kennir raunar fyrsta hluta síðustu
bókar sinnar við frumspeki og skrifar: „Frumspekin, eins og ég tala um hana hér, er
tilraun til greiningar á heiminum í heild sinni í anda Aristótelesar.“33 Það liggur
beint við að skilja hugmyndir Páls um nýja tilgangshyggju í lok síðustu bókar
hans í ljósi þessarar viðleitni.
Í þessu samhengi finnst mér þýðingarmest að þessi munur á sýn þeirra Páls
og Habermas á stöðu heimspekinnar hefur í för með sér ólíkan skilning á skyn-
28 Páll Skúlason 1993: 86.
29 Páll Skúlason 2015: 13 og 15.
30 Habermas 1992: 36.
31 Habermas 2001: 230.
32 Þetta var raunar eitt síðasta efnið sem bar á góma í samræðum okkar Páls og hann nefndi við mig
bókina Nachmetaphysisches Denken – eða Hugsun í kjölfar frumspekinnar eftir Habermas sem
hann hafði verið að glugga í.
33 Páll Skúlason 2015: 18.
Hugur 2017-6.indd 57 8/8/2017 5:53:25 PM