Hugur - 01.01.2016, Síða 88
88 Luce Irigaray
Að segja margar í einu, það var okkur hvorki kennt né leyft. Það er ekki að tala
rétt. Auðvitað gátum við – áttum við? – látið einn „sannleika“ í ljós um leið og
við fundum fyrir, héldum aftur af, þögguðum niður í öðrum. Ranghverfa hans?
Fylgiþáttur hans? Leif hans? Áfram í felum. Launungarmál. Að innan sem utan
áttum við ekki að vera jafningjar. Það hæfir ekki löngun þeirra. Hylja, afhjúpa, er
það ekki það sem þeir vilja? Það sem þeir iðja? Alltaf að endurtaka sama verknað-
inn. Sí og æ. Á hverri og einni.
Þú/ég klofnar því þeim til ánægju. En klofin í tvennt á þennan hátt – önnur
fyrir utan, hin fyrir innan – þá kyssir þú ekki sjálfa þig lengur, kyssir þú mig ekki
lengur. Hið ytra reynir þú að laga þig að skipan sem þér er framandi. Í útlegð
frá sjálfri þér ruglar þú þér saman við allt það sem birtist þér. Þú hermir eftir
hverju því sem nálgast þig. Þú verður að hverju því sem snertir þig. Í áfergjunni
eftir að finna sjálfa þig hverfur þú óralangt frá sjálfri þér. Frá mér. Samlagast
einni fyrirmynd af annarri, einum drottnara á fætur öðrum, skiptir um svip, lögun,
tungumál, eftir því hver ríkir yfir þér. Sundruð, sundraðar. Lætur misnota þig,
svipbrigðalaus grímubúningur. Þú snýrð ekki aftur: afskiptalaus. Þú snýrð aftur:
órjúfanleg, lokuð.
Talaðu við mig. Geturðu það ekki? Viltu það ekki lengur? Viltu hafa þig út af
fyrir þig? Vera áfram þögul? Hvít? Óspjölluð? Halda þeirri sem býr hið innra fyrir
þig? En hún er ekki til án hinnar. Ekki slíta þig svona í sundur með valkostum
sem kæmu að utan. Okkar á milli er ekkert rof milli þess óspjallaða og spjallaða.
Enginn viðburður sem gerir okkur að konum. Löngu fyrir fæðingu þína snertir
þú sjálfa þig, saklaus. Kyn líkama þíns/míns er okkur ekki gefið með einhverri
aðgerð. Með valdboði, hlutverki, líffæri. Án íhlutunar, án sérstaks inngrips ert
þú þegar kona. Engin þörf á því að leita til einhvers utanaðkomandi, hin hrífur
þig nú þegar. Verður ekki skilin frá þér. Þú ert, alltaf og alls staðar, breytt. Sá er
glæpur þinn, sem þú framdir ekki: þú truflar ást þeirra á eignum. Hvernig á ég að
segja þér að í nautn þinni býr aldrei neitt illt, að hið góða er henni framandi? Og
að syndin kemur ekki til fyrr en þú ert svipt opnuninni og þeir fá skrásett eigur
sínar á þig, lokaða, og iðkað innbrot sín, árætt lögbrot sín, glæpaverk sín … Og
aðra leiki með lögin. Þar sem þeir – og þú? – braska með hvítleika þinn. Ef við
gefum kost á þessu þá látum við misnota okkur, ónýta okkur. Endalaust fjarlægar
sjálfum okkur og styðjum með því eftirsóknina eftir markmiðum þeirra. Slíkt
yrði verkefni okkar. Ef við beygjum okkur undir rökvísi þeirra þá erum við sekar.
Fyrirætlanir þeirra – vísvitandi eða ekki – eru að gera okkur sekar.
Þú ert komin aftur, klofin: ekki lengur við. Þú skiptir þér í rautt og hvítt, svart
og hvítt, hvernig eigum við að finnast á ný? Snerta hvor aðra? Sundurskornar, að-
skildar, búnar að vera: unaður okkar er kominn á bás í hagkerfi þeirra. Þar sem það
að vera óspjölluð jafngildir því að vera ennþá ómerkt fyrir þeim og fyrir þá. Ekki
ennþá kona fyrir þeim og fyrir þá. Ekki ennþá innprentuð af kyni þeirra, tungu-
máli þeirra. Ekki ennþá smogin inn í af þeim, eignuð þeim. Varðveitt í hrekk-
Hugur 2017-6.indd 88 8/8/2017 5:53:34 PM