Hugur - 01.01.2016, Page 135
Rökgreiningarheimspeki sem gagnrýnistól 135
gerði misheppnaðar tilraunir til samstarfs við Max Horkheimer, einn af helstu
upphafsmönnum hins svokallaða Frankfurtarskóla, þar sem gagnrýnin fræði eiga
upptök sín.
Árið 1937 markaði ákveðin tímamót í þessum efnum. Þá birtist hin áhrifamikla
grein Horkheimers „Nýjasta árásin á frumspeki“ (Der neueste Angriff auf die
Metaphysik) í sjötta hefti tímaritsins Zeitschrift für Socialforschung þar sem hann
gagnrýndi harðlega hugmyndir pósitívista. Þessi grein Horkheimers átti eftir að
hafa mikil og mótandi áhrif á viðtökur við verkum pósitívistanna í ranni vinstri
manna og átti stóran þátt í því orðspori sem þeir hlutu, að þeir væru uppfullir af
tæknihyggju og verkfærahyggju og ófærir um gagnrýnið sjónarhorn á samfélagið.
Í sama tímaritshefti birtist raunar grein eftir Neurath sem var gagnrýni á pen-
ingahyggju kapítalismans, enda höfðu Neurath og Horkheimer átt í nokkrum
samskiptum frá því á árinu á undan.30
Hinn árásargjarni stíll í grein Horkheimers virtist koma nokkuð flatt upp á
Neurath, sem skrifaði Horkheimer eftir að greinin birtist: „Nú hef ég lesið grein-
ina þína. Fyrst brá mér illa við. Svo las ég hana aftur og sá að þú veitir öll þín
stuðandi högg böðuð ástríkri hvatningu.“31 Neurath skrifaði svargrein sem hann
vildi fá birta í tímaritinu og sendi Horkheimer (sem ritstjóra) hana nokkrum
mánuðum eftir að grein Horkheimers hafði birst. Horkheimer hafnaði birtingu
hennar á þeim forsendum að tímaritið væri „ekki ætlað sem vettvangur fyrir önd-
verðar skoðanir“.32 Eftir þetta slitnaði upp úr öllum samskiptum þeirra á milli
og Neurath óskaði fljótlega eftir að fá handritið að grein sinni endursent. Þetta
handrit glataðist og Neurath lést nokkrum árum síðar en handrit að greininni
fannst loks í skjalasafni í Haarlem í Hollandi árið 1996 og var fyrst farið að búa
það til birtingar 2004.33 Greinin reyndist innihalda ýmis svör við ásökunum
Horkheimers og leggur Neurath þar áherslu á að leiðrétta þann skilning sem
Horkheimer leggur í mynd pósitívista af vísindum og tilgangi þeirra. Þessi grein
Neuraths er þó alls ekki eina vísbendingin um að Horkheimer hafi dregið upp
villandi mynd af pósitívisma, enda eru vissulega til ýmis önnur skrif, bæði eftir
Neurath og aðra pósitívista, sem byggja hefur mátt á til að draga þá ályktun að
fullyrðingar Horkheimers séu ósanngjarnar og byggðar á rangtúlkunum. Þetta
hafa ýmsir fræðimenn tekið að benda á síðastliðna áratugi, ekki síst í Þýskalandi
og Austurríki, en lengstum hefur sagan verið skoðuð með gleraugum Frankfurt-
arskólamanna og þar með hefur verið gengið að því sem vísu að pósitívistarnir
hafi verið andsnúnir öllum siðferðisdómum í heimspeki og viljalaus verkfæri illra
pólitískra afla.34
Neurath leit svo á að finna mætti sameiginlegan grundvöll fyrir öll vísindi og
30 O’Neill og Uebel 2004: 75–76.
31 Bréf Neuraths til Horkheimers 21. júní 1937. Horkheimer 1995: 178.
32 Bréf Horkheimers til Neuraths 29. desember 1939. Horkheimer 1995: 344.
33 Barck 2011: 32–33.
34 Rainer Hegselmann (1983) talar t.d. um að skýringar vanti á því hvers vegna Horkheimer hafi
þegar á valdatíma nasista farið að stytta sér leið í gagnrýni á pósitívista með ófyrirgefanlegum
hætti. O’Neill og Uebel (2004: 89) segja að frásögn Horkheimers af pósitívisma sé best lýst sem
skopstælingu á því sem Neurath og aðrir Vínarhringsmenn voru raunverulega að gera. Meira um
þessa deilu má lesa í grein O’Neills og Uebels, í Barck 2011 og í Pombo, Symons og Torres 2011.
Hugur 2017-6.indd 135 8/8/2017 5:53:49 PM