Hugur - 01.01.2016, Qupperneq 172
172 Jóhannes Dagsson
svo á að það sé útkoma skapandi aðgerðar eða hugsunar sem slík, sem segi til um
þennan greinarmun. Þótt við tölum stundum um t.d. listaverk sem frumleg, eða
um að þau feli í sér framsetningu á nýrri hugmynd, virðist þar vera um dóm um
gæði verksins að ræða, frekar en skýrt skilgreinda eiginleika sem vísað er til. Eins
virðist vera erfitt að koma í veg fyrir að við getum haft rangt fyrir okkur þegar
kemur að því að dæma um sköpun út frá hlutnum eða athöfninni sem er afurð
hennar. Greinarmunurinn á S-sköpun, og P-sköpun sem settur var fram hér að
ofan er einmitt ágætt dæmi um það.
Það er því betri kostur hér að horfa til hugsunarinnar eða athafnarinnar sjálfrar,
að horfa til þess að þessi fyrirbæri hafi einhverja þá eiginleika sem skilja þá frá
öðrum hugsunum eða athöfnum sem ekki eru skapandi. Við höfum þegar komið
okkur upp ákveðinni aðgreiningu sem er gagnleg hér, það er aðgreiningu milli
þess sem er gert vitandi vits, eða af ásetningi, og þess sem við gerum óvart, eða
einfaldlega gerist. En eins og ég benti á hér framar þá er sú aðgreining ekki nógu
þröng. Að gera eitthvað af ásetningi er jú eitthvað sem á við um stóran hluta af
athöfnum okkar og hugsunum.
Ég nefndi hér að ofan að stundum væri vandséð hvernig við getum greint gild-
isdóm um sköpunargáfu frá því þegar við erum einfaldlega að lýsa þeirri stað-
reynd að ákveðin hugsun eða hegðun sé skapandi. Ég orðaði það sem svo að
ákvörðunin um það hvort hugmynd nær athygli okkar eða á sér einhvers konar
framhaldslíf, t.d. í athöfn, felist í mati á gildi hugmyndarinnar, en ekki í mati á
því hvort hugmyndin er skapandi í þeim skilningi að vera ný eða óvænt, og ólík
fyrri hugmyndum.
Ef þessi lýsing er rétt má draga af því ákveðnar ályktanir. Í fyrsta lagi er augljóst
að okkur er ákveðinn vandi á höndum, ef við viljum halda gildisdómum algerlega
fyrir utan umfjöllunarefnið. Í öðru lagi er greinilegt að ákveðin reynsla eða upp-
lifun af því hvernig hugmyndin er, frekar en reynsla eða upplifun af því hvort hún
er skapandi eða ekki, ræður miklu um það hvort hugmyndin fær framhaldslíf og
um það hvort við ákveðum að byggja athafnir okkar á henni.
Skapandi hugmynd er ekki aðeins ætlandi. Það er einnig falin í henni sú sértæka
ætlan gerandans að breyta viðfangi sínu, ekki á hvaða hátt sem er, heldur þannig
að útkoman úr þeirri breytingu sé ný, sé önnur en þegar viðkomandi fékkst síðast
við sömu úrlausnarefni. Þessi breyting er ekki hvaða breyting sem er. Eins og
við sáum hér að ofan, þá hefur mat okkar á því hvað er skapandi eitthvað með
þann gildisdóm sem við fellum yfir hugsuninni eða athöfninni að gera. Ástæðan
er sú að skapandi hugsun eða athöfn er alltaf skapandi í samhengi við ákveðnar
aðstæður sem eru til staðar, og út frá ákveðinni útkomu sem við höfum í huga
(mótaða eða ómótaða) þegar hugsunin eða athöfnin er framkvæmd. Skapandi
hugsun er ekki án samhengis, heldur er það samhengið sem hún fæðist í sem
gerir hana mögulega. Boden og Stokes nota hugmyndina um hugmyndasvæði
(e. conceptual space) til þess að tjá svipaða hugmynd og þá sem ég er að setja fram
hér. Munurinn á nálgun minni og þeirra er sá að þó svo við séum sammála um að
reglur og forskriftir séu það sem hugmyndasvæði er búið til úr, tel ég að reynsla
Hugur 2017-6.indd 172 8/8/2017 5:54:00 PM