Heilbrigt líf - 01.12.1941, Blaðsíða 43
heilsusamleg að öðru leyti. Þau eiga að vera rúmgóð og
loftgóð. Húsgögnin eiga að vera létt og óbrotin, svo að
auðvelt sé að færa þau til og hreinsa undir þeim. Rósa-
flúr og bólstruð húsgögn eiga þar ekki heima, því að ryk
vill safnast þar. Sama gildir um gólfábreiður. Betra er að
þvo gólfin daglega en að gljá þau, þar eð ryk kann að þyrl-
ast upp, þegar gljáð er. Gluggatjöld eiga að vera þannig,
að þau safni sem minnstu ryki. Sængur og teppi eiga að
vera létt og eigi of heit. Það er engin heilsubót að vakna í
svitabaði. Hitinn í svefnherberginu á ekki að vera hærri
en 16—18 stig á Celsius.
Bezt er, að háttatíminn sé jafnan hinn sami. Á þetta
einkum við um börn, en einnig fullorðna. Sé þessa gætt,
verður það bráðlega að vana, að sofna um svipað leyti.
Gæta verður þess, er börn eiga í hlut, að fá þau í rúmið
með góðu. Því miður eru lítil börn oft tekin með valdi,
grátandi og spriklandi, og þeim dembt í rúmið með skömm-
um fyrir óþekktina. Slík börn fá viðbjóð á rúminu sínu og
skoða það sem hálfgerðan kvalastað.
Það er góð regla að gefa börnunum nokkurt tóm áður
en þau eru háttuð. Má láta þau ganga frá dótinu sínu,
hátta brúðurnar o. s. frv., áður en þau eru sjálf háttuð.
Ef þessa er gætt, reikar hugur barnsins til svefnsins þeg-
ar áður en það á að fara að sofa, og er það góður undir-
búningur. Eigi má koma börnum upp á þann óvanda, að
þeim sé vaggað í svefn. Bezt er að láta þau sofa í dimmu,
en séu þau myrkfælin, er rétt að láta loga á náttlampa,
unz barnið er sofnað. Fullorðið fólk skyldi aldrei hræða
börn með myrkrinu né skopast að myrkfælni þeirra.
Það verður tæplega brýnt of vel fyrir fólki, að láta
börn og unglinga fá nægan svefn og fara snemma að hátta.
Talið er, að svefninn fyrir miðnætti sé beztur. Það er lík-
legt, að vöxtur barna og unglinga fari einkum fram, er
þau sofa, en svefnskortur tefur andlegan þroska.
Heilbrigt líf
147