Skírnir - 01.01.1968, Side 12
10
ÓLAFUR JÓNSSON
SKÍRNIR
sagnanna helgast hins vegar einkum af hefðbundnum smekk og
fyrirmyndum. Sýnt hefur verið fram á að Jón Thoroddsen noti sér
verulega sannsögulegan efnivið í sögunum og geri sér óskmynd
eigin æviatvika í atburðarás þeirra, en þessi skilningur gerir þær
ekki áhugaverðar, lifandi lesningu enn í dag, heldur er það skop-
gáfa skáldsins. Hin kyrrstæða heimsmynd sögunnar tryggir það að
allt fer vel að lokum, illir fá makleg málagjöld en góðir verðuga
umbun, en innan þessarar siðferðilegu umgerðar og vegna hennar
fær skopgerð lífsýn höfundarins að njóta sín, öll hans rækt við sitt
afkáralega sögufólk, lýtt til líkams eða sálar. Þetta fólk er hinar
eiginlegu söguhetjur Jóns Thoroddsen, ekki ungir og rómantískir
elskendur hans. En sögur eins og Mannamunur eða Aðalsteinn njóta
engrar slíkrar frumlegrar lífsýnar höfundarins í verkinu, heims-
mynd þeirra léttir ekki af höfundunum siðferðilegri ábyrgð á sögu-
fólki sínu, og verður þess vegna mest í mun að rekja örlög og ævin-
týri sögufólksins „í alvöru“, en þeim efnum tókst Jóni Mýrdal og
Páli Sigurðssyni svo sem hvorki að gera betri né verri skil en Jóni
Thoroddsen.
Með raunsæisstefnunni, Verðandi og Kærleiksheimili Gests Páls-
sonar, breytist heimsmyndin, eða fær öllu heldur nýja áherzlu: höf-
undurinn rís upp gegn sinni hefðbundnu klassísku sveit og siðalög-
málum hennar. Allt í einu er farið að ætlast til að skáldskapur láti
sér ekki nægja að lýsa heiminum eins og hann sé heldur leitist við
að breyta heiminum, og þykir reyndar góð latína enn í dag. Þar
með breytist líka hlutverk sögumanns í skáldsögum, verður í æ rík-
ari mæli að fara að tjaldabaki og í fötin sögufólksins, birta lífsýn
eða heimsskoðun sína dramatíseraða í vitund þess, orðum og æði.
Sú afstaða var fjarri Jóni Thoroddsen enda ástæðulaus við hans
óbreytilegu heimsmynd sem var að sínu leyti nákvæmlega jafnrétt
eða röng og hin að heimurinn sé síbreytilegur. Hann var að semja
skopleiki mannlífs og þjóðlífs sem hann þekkti til grunna, umbar
bresti þess fremur en hann megnaði tiltakanlegum áhuga á dyggð-
um þess, og skyggndi þetta líf af sínum heiða sjónarhól með svo
innvirðulegri skopvísi að sögur hans eru og verða alla daga lifandi
skáldskapur, ævarandi minnismerki aldar sinnar. Epískur sögumað-
ur 19du aldar kemur við upphaf allrar skáldsagnagerðar sem síðan
hefur þróazt margvíslega og tekið og tekur sífelldum breytingum.